Laugavegur sem göngugata,nýtt deiliskipulag
Síðast Vísað til borgarráðs á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 97
10. mars, 2021
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að nýju deiliskipulagi fyrir Laugaveginn sem göngugötu, 2. áfanga, sem er í samræmi við samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur frá 4. september 2018. Í tillögunni felst að hluti Laugavegs og Vatnsstígs verða gerðar að varanlegum göngugötum og samhliða því er unnið að hönnun ýmissa lausna til að bæta götuna og umhverfið. Gert er ráð fyrir að endurnýja allt yfirborð, hellur, gróður, götugögn og lýsingu, samkvæmt uppdr. Landslags ehf. dags. 21. september 2020, br. 1. mars 2021. Tillagan var auglýst frá 30. október 2020 til og með 11. desember 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Félag atvinnurekenda dags. 16. nóvember 2020, Lárus Þór Jónsson og Lilja Björk Jónsdóttir dags. 9. desember 2020, Lárus Þór Jónsson og Lilja Björk Jónsdóttir f.h. Lali ehf. dags. 9. desember 2020, Miðbæjarfélagið í Reykjavík dags. 10. desember 2020, Veitur dags. 10. desember 2020 og Björn Jón Bragason f.h. Ásgeirs Bolla Kristinssonar dags. 11. desember 2020. Einnig er lögð fram umsögn Minjastofnunar Íslands dags. 14. janúar 2021 og umsögn skipulagsfulltrúa dags. 1. mars 2021.
Svar

Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 1. mars 2021, með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn atkvæði fulltrús Sjálfstæðisflokksins; Eyþórs Laxdals Arnalds. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins; Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir, sitja hjá við afgreiðslu málsins.Vísað til borgarráðs.

Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Tillagan er í samræmi við samþykkta stefnu borgarstjórnar frá september 2018 um að gera Laugaveginn að varanlegri göngugötu allt árið. Hér er verið að samþykkja annan áfanga sem nær yfir Laugaveg frá Klapparstíg að Frakkastíg auk Vatnsstígs. Tillagan gerir ráð fyrir auknum gróðri og mun stuðla að bættu umferðaröryggi fyrir gangandi vegfarendur sem fara um svæðið. Algild hönnun verður höfð að leiðarljósi við hönnun svæðisins sem mun hafa í för með sér bætt aðgengi fyrir öll. Við fögnum þessum áfanga og samþykkjum tillöguna að lokinni auglýsingu.
  • Miðflokkur
    Enn á ný er lokun Laugavegarins og gatna í miðbænum til umræðu. Í tillögunni felst að hlutar Laugavegar og Vatnsstígs verða gerðir að varanlegum göngugötum. Miðbæjarfélagið í Reykjavík hefur farið þess á leit við borgaryfirvöld að falla frá öllum áformum um lokun gatna í miðbæ Reykjavíkur. Undir erindið rita tæplega 30 rekstraraðilar ýmissa fyrirtækja sem þar starfa og hafa þeir 1.689 ára rekstrarsögu. Telja þessir aðilar að með ákvörðun borgarstjóra og meirihlutans að meðalhófsregla stjórnsýsluréttar sé brotin á þeim grunni að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að var stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þeir hagsmunir sem hér um ræðir eru atvinnuréttindi manna og eignarréttindi og mannréttindi sem njóta verndar 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig benda samtökin á að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin á þeim grunni að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun, séu sannar og réttar. Umrædd ákvörðun er verulega íþyngjandi fyrir rekstraraðila sem hafa mátt þola mikið tap vegna götulokana. Þrátt fyrir þessi sterku lögfræðirök heldur borgin áfram að böðlast á rekstraraðilum.
  • Flokkur fólksins
    Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að allt þetta mál sé ein harmsaga. Það fjallar ekki um hvort göngugötur séu skemmtilegar eða ekki. Þetta fjallar um að meirihlutinn átti sig á mikilvægi tímasetninga, geti lesið í aðstæður, geti sett sig í spor og síðast en ekki síst noti sanngjarna aðferðarfræði. Í þessar breytingar hefði mátt fara hægar og hefði átt að bjóða hagaðilum að ákvörðunarborðinu á fyrstu stigum. Margir sakna Laugavegarins eins og hann var. Það sem fór fyrir brjóstið á mörgum var að meirihlutinn hafði bókað að götur yrðu opnaðar aftur eftir sumarið 2019 en stóðu síðan ekki við þá ákvörðun. Margir hagaðilar höfðu beðið óþreyjufullir eftir opnun þetta haust því verslun hafði dalað í kjölfar lokunar umferðar. Of mikil óbilgirni, harka hefur einkennt aðgerðir skipulagsyfirvalda þegar kemur að þessu máli. Eftir sitja rjúkandi rústir á sviðinni jörð, svekkelsi og djúpstæð reiði. Það er vissulega rétt að flestar göngugötur eru að mestu ,,stétt“ með viðeigandi skreytingum. En nú er heimild í lögum að P merktir bílar aki göngugötur og lögum þarf að fylgja. Enn vantar viðeigandi merkingar, skilti til að merkja þessa lagaheimild. Það hefur orðið til þess að fólk á P merktum bílum hefur orðið fyrir aðkasti.