Laugavegur sem göngugata,nýtt deiliskipulag
Síðast Vísað til borgarráðs á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 82
23. september, 2020
Samþykkt
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að nýju deiliskipulagi fyrir Laugaveginn sem göngugötu, 2. áfanga, sem er í samræmi við samþykkt Borgarstjórnar Reykjavíkur frá 4. september 2018. Í tillögunni felst að hluti Laugavegs og Vatnsstígs verða gerðar að varanlegum göngugötum og samhliða því er unnið að hönnun ýmissa lausna til að bæta götuna og umhverfið. Gert er ráð fyrir að endurnýja allt yfirborð, hellur, gróður, götugögn og lýsingu, samkvæmt uppdr. Landslags ehf. dags. 16. september 2020.
Svar

Samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Laxdal Arnalds, greiðir atkvæði gegn tillögunni og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir, sitja hjá.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Tillagan er í samræmi við samþykkta stefnu borgarstjórnar frá september 2018 um að gera Laugaveginn að varanlegri göngugötu allt árið. Hér er verið að samþykkja áfanga 2 sem er frá Klapparstíg að Frakkastíg. Tillagan gerir ráð fyrir auknum gróðri og mun stuðla að bættu umferðaröryggi fyrir gangandi vegfarendur sem fara um svæðið. Við fögnum þessum áfanga.
  • Miðflokkur
    Nýtt Laugavegsstríð er í uppsiglingu og enn á að þrengja að verslun og öðrum viðskiptum á svæðinu. Nú á að stækka göngugötur allt árið yfir Laugaveg frá Klapparstíg að Frakkastíg auk Vatnsstígs og er þetta hluti þeirra gatna sem flokkaðar voru sem annar áfangi í deiliskipulagslýsingunni. Fyrir skömmu birtust auglýsingar þar sem sagði: „Staðan í miðbæ Reykjavíkur er ískyggileg. Laugavegurinn, sem áður var aðalverslunargata bæjarins, hefur á örskömmum tíma orðið að draugagötu fyrir tilverknað borgaryfirvalda.“ Félagsfundur Miðbæjarfélagsins í Reykjavík mótmælti einnig harðlega árásum í formi götulokana á rekstraraðila og að þær hafi grafið undan atvinnustarfsemi við göturnar og þær feli í reynd í sér eignaupptöku þar sem verslunarhúsnæði verður illseljanlegt og hríðfellur í verði. Hátt í 40 rými eru nú tóm við Laugaveg, frá Snorrabraut að Bankastræti. Það er því einstaklega ósvífið að halda því fram nú að mikið líf hafi skapast á Laugaveginum síðustu misseri þar sem takmarkanir á bílaumferð hafa gert gangandi og hjólandi umferð hærra undir höfði. Einnig er því hafnað að víðtækt samráðsferli hefur þegar átt sér stað við hagsmunaaðila. Samráð er ekki samráð þegar skoðun eins aðila ræður för og valtað er yfir aðra. Það heitir einráð og er þar að auki frá stjórnvaldi.