Flokkur fólksins
Hugmynd um Vetrargarð er í uppnámi vegna fyrirhugaðrar lagningar hraðbrautar þvert yfir Vatnsendahvarf. Byggt er á úreltu umhverfismati. Er það siðferðislega verjandi fyrir svona "græna" borgarstjórn að fara ekki fram á nýtt umhverfismat, sérstaklega í ljósi þessara nýju áætlana með Vetrargarðinn? Það eru engin rök að segja að ekki sé „venja“ að fá nýtt umhverfismat þegar verk er hafið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst skipulagsyfirvöld varpa allri ábyrgð ýmist á Vegagerðina, bæjarstjórn Kópavogs eða samgöngusáttmála. Allar forsendur hafa breyst. Þarna á að fórna dýrmætu grænu svæði, sem er varplendi ýmissa farfuglategunda fyrir úreltar áætlanir og allar áhyggjur íbúa hafa hingað til verið hunsaðar. Íbúar í Fellahverfinu hafa t.d. miklar áhyggjur af því að fá mislæg gatnamót ofan í garðana hjá sér og að þessar aðgerðir muni koma til með að lækka húsnæðisverð á svæðinu. Komi þessu vegur þar sem honum er ætlað mun það verða stórfellt umhverfisslys sem mun auka umferð og mengun í nálægð við íbúðahverfi og eyðileggja dýrmætt grænt svæði. Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á að fá í hendur öll gögn um þetta mál, nýjustu uppdrætti svo sem varðandi tengingar við Breiðholtsbraut, nábýli við Vetrargarð, breidd geilarinnar sem sprengt er fyrir (40-50 m?), afvötnun upp af Jóruseli og göngu/reiðhjólabrú.