Gufunes, samgöngutengingar,nýtt deiliskipulag
Gufunes
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 105
26. maí, 2021
Annað
Fyrirspurn
Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. 19. mars 2021 fyrir nýtt deiliskipulag. Um er að ræða tæplega 20 hektara svæði og er markmið skipulagsins m.a. að festa inn á deiliskipulag bráðabirgðatengingar fyrir innanhverfisveg og stígatengingar frá Gufunesinu upp á Strandveg í Grafarvogi, ásamt því að tryggja góð tengsl við umhverfið með fyrirkomulagi stíga, gatna og opinna svæða. Hafa þarf í huga fyrirhugaða lega Sundabrautar við skipulagsvinnuna. Jafnframt verður Hallsteinsgarður og nærumhverfi fest í sessi inn á deiliskipulag. Lýsing var kynnt til og með 5. maí 2021. Eftirtaldir sendu ábendingar/umsögn: skrifstofa umhverfisgæða dags. 12. apríl 2021, Veitur dags. 13. apríl 2021 og 5. maí 2021, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur dags. 4. maí 2021 og íbúaráð Grafarvogs dags. 5. maí 2021.
Svar

Kynnt.

Gestir
Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Nauðsynlegt er að bæta tengingar fyrir gangandi og hjólandi inn í hverfið, óháð því með hvaða hætti Sundarbraut kemur til með að liggja í gegnum svæðið. Ánægjulegt að Hallsteinsgarður fái fastan sess í skipulagi íbúum og öðrum borgabúum til yndisauka.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Brýnt er að nýjar bráðabirgða vegtengingar í Gufunesi þrengi ekki að legu Sundabrautar. Nú liggur fyrir niðurstaða um vegstæði Sundabrautar og verða því allar ákvarðanir um vegtengingar að taka mið af henni enda eru bundnar vonir við að fljótlega verði tekin ákvörðun um þann kost sem nefnd um Sundabraut hefur lagt til og framkvæmdir hefjast. Það er afar óskynsamlegt og mikil sóun á skattfé borgarbúa að fara í kostnaðarsamar vegtengingar sem þarf að rífa upp þegar lagning Sundabrautar hefst. Slík vinnubrögð hafa því miður verið viðhöfð áður í Gufunesi þegar lagður var vegur þar árið 2018 með miklum tilkostnaði sem búið er að moka í burtu innan aðeins þriggja ára. Mikilvægt er að vandað verði til verka við vegtengingar í Gufunesi, tekið tillit til legu Sundabrautar og haft verði gott samráð við íbúasamtök og íbúa.
  • Miðflokkur
    Sporin hræða gagnvart borgarstjóra þegar kemur að skipulagsvinnu varðandi Sundabraut. Fyrst var girt fyrir komu hennar á Kirkjusandi, síðar í Vogahverfi og nú í Gufunesi. Meirihlutanum er ekki treystandi. Verið er að kynnar bráðabirgðatengingar fyrir gangandi og hjólandi frá Gufunesi upp í Grafarvog og eiga þær að vera víkjandi gagnvart Sundabraut. Hvers vegna er rokið í þetta verkefni nú sem verður mjög kostnaðarsamt korter í að ákvarðanir um legu Sundabrautar. Þessu fólki sem stórnar Reykjavík er ekki viðbjargandi og ekki treystandi. Borgarfulltrúi Miðflokksins skilur ekki hvers vegna samgönguráðherra og Vegagerðin er ekki löngu búin að gefast upp á samstarfi við meirihlutann í Reykjavík. Það mætti halda að þar væru öll ljós kveikt og enginn heima.
  • Flokkur fólksins
    Kynntar eru athugasemdir og ábendingar vegna Gufunes, samgöngutengingar, skipulagslýsing fyrir nýtt deiliskipulag. Fram kemur að af ýmsu er að hyggja s.s. góð tengsl við umhverfið með fyrirkomulagi stíga, gatna og opinna svæða. Fulltrúi Flokks fólksins vill segja í þessu sambandi að hafa þarf í huga fyrirhugaða legu Sundabrautar við skipulagsvinnuna. Nákvæm lega hennar hefur ekki verið ákveðin enda þótt búið sé að ákveða vegstæði í grófum dráttum. Það er nauðsynlegt að ákvarða fyrst nákvæma legu Sundabrautar áður en farið er í að ákveða fyrirkomulag stíga og gatna. Það hlýtur að auðvelda skipulagsvinnu við stíga og götur ef búið er að ákveða nákvæma legu brautarinnar, annars er um hugsanlegan tvíverknað að ræða. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að hinkrað verði með þessa vinnu til að tryggja að ekki sé verið að sóa fjármagni, út í loftið. Að öðru leyti vonar fulltrúi Flokks fólksins að það samráð sem skipulagsyfirvöld tala um sé viðhaft sé alvöru samráð en ekki málamyndasamráð, til að geta „sagt“ að samráð hafi verið haft.