Arnarnesvegur, nýtt deiliskipulag
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 109
30. júní, 2021
Annað
Fyrirspurn
Að lokinni kynningu er lögð er fram að nýju skipulagslýsing verkfræðistofunnar EFLU fh. Reykjavíkurborgar og Kópavogs, dags. 19. mars 2021, fyrir nýtt deiliskipulag Arnarnesvegar 3. áfanga. Fyrirhugað deiliskipulag nær til hluta Arnarnesvegar frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar að fyrirhuguðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar og veghelgunarsvæða hans sem nær að jafnaði 30 metra út frá miðlínu vegarins. Hluti veghelgunarsvæðis Arnarnesvegar er innan sveitarfélagsmarka Reykjavíkur, en stærsti hluti vegarins liggur innan sveitarfélagsmarka Kópavogs. Arnarnesvegur sem liggur innan marka skipulagssvæðisins er um 1,9 km að lengd og liggur frá suðaustur hluta Leirdals að grænu opnu svæði norðan Breiðholtsbrautar. Tillagan var kynnt til og með 25. maí 2021. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Guðmundur Svafarsson dags. 29. apríl 2021, Hlynur Gíslason dags. 3. maí 2021, Umhverfisstofnun dags. 3. maí 2021, bókun fulltrúa í íbúaráði Breiðholts dags. 5. maí 2021, Vinir Vatnsendahvarfs dags. 25. maí 2021, Náttúrufræðistofnun Íslands dags. 25. maí 2021, Vegagerðin dags. 25. maí 2021, Minjastofnun Íslands dags. 26. maí 2021, Skipulagsstofnun dags. 26. maí 2021, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur dags. 27. maí 2021, Heiðar Ásberg Atlason dags. 28. maí 2021 og Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs dags. 3. júní 2021.
Svar

Athugasemdir kynntar.

Gestir
Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Framlenging Arnarnesvegar ásamt gatnamótum við Breiðholtsbraut er hluti af samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Tryggja þarf góðar tengingar fyrir gangandi og hjólandi í hæsta gæðaflokki milli sveitarfélaga, yfir áætlaðan Arnarnesveg. Samfelldur stígur þyrfti að liggja norðan og sunnan við veginn alla leið. Eins þyrfti viðbótarþverun á miðri leið, t.d. undirgöng sem fólk og dýr gætu nýtt. Áætluð framkvæmd þarf að tryggja að ekki sé gengið á svæðið fyrirhugaðs vetrargarð og að fyrirhuguð gatnamóta gengi ekki of freklega á land og umhverfi um leið og gætt verði að öryggi allra vegfarenda.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Úrbætur á gatnamótum Arnarnesvegar átti að vera lokið á þessu ári samkvæmt samgöngusáttmála. Ljóst er að það mun ekki nást vegna skipulagsmála í Reykjavík sem hafa verið í skötulíki. Gerðar hafa verið þrjár útfærslur að gatnamótunum, en hér er ekki verið velja þá sem er öruggust og afkastar mestu. Í stað þess verða gatnamótin áfram ljóstastýrð að hluta, ef þessi útfærsla verður niðurstaðan. Hér er lögð fyrir skipulagslýsing en enn er komið fram endanlegt deiliskipulag og bíður haustsins. Þá er óljóst hvort fara þurfi í nýtt umhverfismat en ljóst að breytingar þarf að gera á aðalskipulagi. Allt hefur því dregist langt umfram það sem lagt var upp með í samgöngusáttmála og í raun óljóst hvort þessi framkvæmd nær fram að ganga á kjörtímabilinu yfirhöfuð.
  • Flokkur fólksins
    Skýrsla frá Eflu er gagn með þessum lið. Þar blasir við að skýrslan er ekki hlutlaus heldur réttlæting á gerðum Vegagerðarinnar. Sagt er að gengið verður frá fláum og fyllingum með staðargróðri til þess að lágmarka ásýndaráhrif rasks. En málið er að gróðurfar í Vatnsendahvarfi er í miklu breytingarskeiði og ekki er hægt að tala um staðargróður. Þarna er aðeins verið að réttlæta slæman gjörning. Einnig er sagt að: „verður markvisst reynt að lágmarka áhrif og inngrip sem hlýst af framkvæmdinni. Sérstaklega á ásýnd svæðanna frá á gróinni íbúðarbyggð og vegna skerðingu á útivistarmöguleika á nærsvæðum. Mótvægisaðgerðum verður markvisst beint að hljóðvist og ásýnd.“  Hér er sagt frá því hvernig þessi vegur mun mjög takmarka útivistargildi svæðisins, svo ekki sé talað um áhrif á Vetrargarðinn. Ekki er séð hvernig bjarga eigi því með því að takmarka hljóðvist og ásýnd.  Og á það má  minna að  Skipulagsstofnun getur ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu framkvæmdaraðila samkvæmt 1. mgr. ef forsendur hafa breyst verulega frá því að álitið lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, alþjóðlegum skuldbindingum eða tækniþróunar.  Á tæpum 20 árum sem liðin er frá umhverfismatinu hefur mest allt ofangreint gerst.