Arnarnesvegur, nýtt deiliskipulag
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 98
24. mars, 2021
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Lögð er fram skipulagslýsing verkfræðistofunnar EFLU fh. Reykjavíkurborgar og Kópavogs, dags. 19. mars 2021, fyrir nýtt deiliskipulag Arnarnesvegar 3. áfanga. Fyrirhugað deiliskipulag nær til hluta Arnarnesvegar frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar að fyrirhuguðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar og veghelgunarsvæða hans sem nær að jafnaði 30 metra út frá miðlínu vegarins. Hluti veghelgunarsvæðis Arnarnesvegar er innan sveitarfélagsmarka Reykjavíkur, en stærsti hluti vegarins liggur innan sveitarfélagsmarka Kópavogs. Arnarnesvegur sem liggur innan marka skipulagssvæðisins er um 1,9 km að lengd og liggur frá suðaustur hluta Leirdals að grænu opnu svæði norðan Breiðholtsbrautar.
Svar

Samþykkt er að kynna lýsingu að deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Minjastofnun Íslands, Borgarsögusafn Reykjavíkur, Íbúaráði Breiðholts, Vegagerðinni, HHGK, Heilbrigðiseftirliti Garðabæjar, Hafnafjarðar og Kópavogs, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Veðurstofu Íslands og Veitum ohf. Einnig skal kynna hana fyrir almenningi. Vísað til borgarráðs.

Gestir
Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Framlenging Arnarnesvegar ásamt gatnamótum við Breiðholtsbraut er hluti af samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Tryggja þarf góðar tengingar fyrir gangandi og hjólandi í hæsta gæðaflokki milli sveitarfélaga, yfir áætlaðan Arnarnesveg. Samfelldur stígur þyrfti að liggja norðan og sunnan við veginn alla leið. Eins þyrfti viðbótarþverun á miðri leið, t.d. undirgöng sem fólk og dýr gætu nýtt. Áætluð framkvæmd þarf að tryggja að ekki sé gengið á svæðið fyrirhugaðs vetrargarð og að fyrirhuguð gatnamóta gengi ekki of freklega á land og umhverfi um leið og gætt verði að öryggi allra vegfarenda.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Samkvæmt samgöngusáttmála átti að ljúka við gerð nýrra gatnamóta við Arnarnesveg á yfirstandandi ári. Ljóst er að skipulagsmál í Reykjavík hafa tafið það. Réttast hefði verið að gera breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur árið 2019 til að unnt væri að standa við framkvæmdaáætlunina. Það var ekki gert. Enn á eftir að auglýsa breytingar á deiliskipulagi og aðalskipulagi þar sem hér er aðeins verið að samþykkja að auglýsa deiliskipulagslýsingu sem er eitt skref af mörgum.
  • Flokkur fólksins
    Skýrsla um lokaáfanga Arnarnesvegar er miklum annmörkum háð. Hér er ekki fjallað um valkosti heldur er einum kosti stillt upp. Annar augljós kostur er að leggja veginn í Tónahvarf og tvöfalda veg þaðan að Breiðholtsbraut og gera stórt hringtorg á mótum þeirra vega. Hvers vegna eru mismunandi kostir ekki bornir saman? Á síðustu 18 árum hefur margt breyst. Umferðarlíkanið sem stuðst var við í upphaflega matinu er úrelt. Umferðin á fyrsta áfanga Arnarnesvegar hefur nú þegar náð efri mörkum umferðar í matinu og hefur Vegagerðin þar með ekki heimild til frekari stórframkvæmda. Vegagerðin ætlar samt að tengja Salahverfi við Breiðholtsbraut með tilheyrandi stofnbrautarumferð. Endurmeta þarf áhrif stóraukinnar umferðar með tilliti til mengunar, hljóðvistar og fleiri þátta, í návígi við fjölmenn íbúðahverfi, Salaskóla og þessa vinsæla útivistarsvæðis sem Vatnsendahvarfið er. Ný hverfi í nánd við veginn hafa verið byggð eftir að umhverfismat var gert og gert er ráð fyrir Vetrargarði í Vatnsendahvarfinu. Byggja á í Kópavogi 4.000 manna byggð efst á Vatnsendahvarfi næstu ár sem ekki hefur verið tekið með inn í reikninginn. Meirihlutinn hefur brugðist í þessu máli að berjast ekki fyrir að fá nýtt umhverfismat og ætla að bjóða börnum upp á að leika sér í Vetrargarði og á skíðum í hraðbrautar-mengunarmekki.