Fyrirspurn
Lögð er fram tillaga Yrki arkitekta ehf. dags. 16. júní 2021 að deiliskipulagi fyrir Heklureit, nánar tiltekið lóðirnar við Laugaveg 168-174a. Í tillögunni eru settar fram skipulagslegar heimildir fyrir íbúðir, atvinnustarfsemi og gististarfsemi. Gert er ráð fyrir að allar byggingar á lóð Laugavegs 168 til 174a verði fjarlægðar að undanskyldu borholuhúsi. Byggðin er mótuð með tilliti til landslags, sólargangs og veðurfars. Byggðin rís hæst til norðurs við Laugaveg og er lægst til suðurs við Brautarholt. Um er að ræða íbúðarhús, 2ja til 7 hæða, með möguleika á 8. hæð á norðvesturhorni Laugavegs 168 á reit A skv. fyrirliggjandi skipulagstillögu. Byggingarnar skulu vera stallaðar með ríku tilliti til sólarátta og byggð skipulögð þannig að miðlægur inngarður sé í góðu skjóli fyrir veðri og vindum við allar byggingar. Gert er ráð fyrir sérafnotaflötum fyrir íbúðir á jarðhæðum og svölum á efri hæðum. Á skipulagssvæðinu er gert ráð fyrir allt að 463 íbúðum með verslun og þjónustu á 1. hæð. Heildar flatarmál ofanjarðar á lóðunum er 46.474 m2. Þar af eru að hámarki 44.351 m2 undir íbúðir og lágmark 2.123 m2 undir verslanir og þjónustu. Einnig lögð fram Húsakönnun Borgarsögusafns dags. 2017 og umhverfismat áætlana dags. febrúar 2018.