Borgarlína - Steinahlíð að Katrínartúni, skipulagslýsing
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 120
10. nóvember, 2021
Samþykkt
Fyrirspurn
Lögð fram deiliskipulagslýsing fyrir borgarlínu frá Steinahlíð að Katrínartúni. Í lýsingunni felast megin áherslur/atriði í gerð deiliskipulags fyrir göturými borgarlínunnar í samræmi við fyrstu framkvæmdalotu borgarlínunnar.
Svar

Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Pírata og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Katrínu Atladóttur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Laxdal Arnalds og Ólafur Kr. Guðmundsson greiða atkvæði á móti skipulagslýsingunni. 

Gestir
Birkir Ingibjartsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Við fögnum næsta áfanga í skipulagsvinnu vegna Borgarlínu sem snýst um að skapa græna borg með valfrelsi í ferðamátum. Skipulag og samgönguinnviðir geta mótað venjur íbúa að miklu leyti og þar sem loftslagsmálin eru stærsta áskorun okkar tíma verður hið opinbera að axla sína mikilvægu ábyrgð, meðal annars með uppbyggingu hágæða almenningssamgangna og innviða fyrir virka ferðamáta. Skipulagslýsingin er undanfari deiliskipulags Borgarlínu eftir Suðurlandsbraut. Umræddur kafli gegnir lykilhlutverki í því að Borgarlínan í heild sinni verði hágæða BRT-kerfi. Mikilvægt er að leggja ríka áherslu þau gæðaviðmið í deiliskipulagsvinnunni framundan. Við leggjum mikla áherslu á að Borgarlínan á að njóta forgangs þegar kemur að plássnotkun, í borgarrými og við gatnamót.
  • Miðflokkur
    Uppbygging samgöngumannvirkja á ávallt að vera með þeim hætti að öllum ferðamátum sé gert jafn hátt undir höfði. Hér er slíku ekki fyrir að fara. Í tillögunni er gróflega er gengið á rými bíla, hvort heldur um ræðir fjölskyldu-, einka eða atvinnubíla, en þar er um að ræða valkosti sem langflestir landsmenn kjósa. Bíllinn er í dag lífsgæði. Lífsgæði sem hartnær 90% landsmanna kjósa að njóta. Borgarlína í þeirri mynd sem hér getur að líta er ekki framþróun heldur skerðing á valfrelsi almennings. Lagt er til að mál tengd Borgarlínu og stórar ákvarðanir hennar tengdar verði settar á ís fram yfir komandi sveitastjórnarkosningar. Þannig fær almenningur tækifæri til að koma sínum vilja á framfæri með afgerandi hætti. Þannig virðum við lýðræðið.
  • Flokkur fólksins
    Efast má um að lýsing á fyrirhugaðri borgarlínu sé nákvæm þegar sagt er ,, að byggt verði upp nýtt hágæðakerfi almenningssamgangna, Borgarlína, sem flytur fjölda fólks á milli helstu kjarna og valinna þróunarsvæða. Auk þess verði kerfi strætisvagna „aðlagað að og samþætt við leiðakerfi Borgarlínunnar,  þótt strætisvagnar og önnur farartæki sem þjóna almenningssamgöngum eiga að njóta forgangs”. Að leggja sérakreinar, þar sem þeim verður við komið sem hafa forgang á ljósastýrðum gatnamótum segja ekki að þetta sé hágæðakerfi. Í raun er þetta gamaldags kerfi þar sem er gert ráð fyrir að akreinum fyrir aðra akandi umferð fækki. Ekki er hugsað um nýjungar í ferðatækni  svo sem léttlestir á teinum tengdum rafmagni, stundum fyrir ofan aðra umferð stundum fyrir neðan, og sem ekki skerða aðra umferðarmöguleika, nokkuð sem borgir í nágrannalöndum hafa innleitt eða eru að innleiða. Reykjavík er sem nátttröll í þessu samhengi. Svona áætlanir hafa engin áhrif á  losun gróðurhúsalofttegunda eða  leggja grunninn að markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Bílar halda áfram að aka þessar götur og þeim mun jafnvel fara áfram fjölgandi þrátt fyrir komu borgarlínulestar.