Lagt fram svar Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 5. júní 2020, er varðar tillögu frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í skipulags- og samgönguráði, um bílastæðahús borgarinnar og snjallsímaforritið Leggja.is.
Svar
Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn frávísun.
Bókanir og gagnbókanir
Flokkur fólksins
Það kemur á óvart hvað bílastæðahúsin eru vanbúin þegar kemur að þjónustu. Tæknilausnir eru lítið nýttar sérstaklega þær sem auka við þjónustu. Bílastæðahús eru vannýtt af ýmsum orsökum. Mörgum finnst þeir ekki öruggir í þeim og óttast að lenda í vandræðum ekki síst með greiðslukerfið. Upplýsingar um opnunartíma eru ekki nógu sýnilegar, í það minnsta lokast fólk inni með bíl sinn vegna þess að það hefur talið að bílastæðahúsið sé opið lengur eða opið allan sólarhringinn. Lendi fólk í vandræðum eftir lokun geta þeir hringt í Reykjavíkurborg. Þá svarar símsvari sem segir fólki að sé neyðartilvik skuli það hringja í 112, sé beðið lengur á línunni (sem hringjandi veit ekki að þarf að gera) fær hann upplýsingar um að hægt er að ýta á neyðarhnapp og komast þá í samband við þjónustuaðila. Hvergi eru í raun leiðbeiningar um þetta og á sjálfri greiðsluvélinni er agnarsmár hnappur sem fáir taka eftir sem stendur á aðstoð. Allt er þetta með öllu ófullnægjandi enda líður varla sú vika að ekki berist sögur af neikvæðri reynslu fólks í bílastæðahúsum borgarinnar. Reynt hefur verið að benda bílastæðasjóði á þessa vankanta en ekki virðist sem það hafi skilað sér.
Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
Vísað frá á grundvelli umsaganar. Fyrri hluti tillögunnar er þegar framkvæmanlegur og seinni hluti af þjónustu sem ólíkir aðilar geta veitt og því ekki hlutverk ráðsins að fyrirskipa um það.