Flokkur fólksins leggur til að komið verði á markvissu samráði við rekstrar- og hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðrar varanlegrar lokunar verslunargatna í miðborginni. Meirihluti borgarinnar er með þessari ákvörðun sinni að valta yfir á þriðja hundrað rekstraraðila við Laugaveg sem hafa með undirskrift sinni mótmælt þessari ákvörðun og óttast um afkomu sína. Með því að keyra þessa ákvörðun í gegn í óþökk og í andstöðu svo margra sem eiga hagsmuna að gæta er yfirvofandi stór ágreiningur og hugsanleg kostnaðarsöm málaferli gagnvart Reykjavíkurborg. Flokkur fólksins fer fram á að tekið verði tillit til þeirra undirskrifta sem afhentar voru borgarstjóra fyrir borgarstjórnarfund 2. apríl s.l. þar sem um 90% rekstraraðila sýndu andstöðu sína í verki varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir? Jafnframt hafa samtök eldri borgara og öryrkja lýst stórum áhyggjum sínum um aðgengi þeirra að þessum rótgrónu verslunargötum. Í drögum meirihlutans að Lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar segir: Borgarbúar eiga að hafa skýran og skilgreindan rétt til að fara fram á að grípa inn í ákvarðanir. Miklar líkur eru á að hér sé verið að brjóta sveitarstjórnarlög. Flokkur fólksins trúir því að setjist aðilar niður verði hægt að sætta sjónarmið og aðlaga verslunargötur miðborgarinnar að þörfum borgarbúa bæði í nútíð og framtíð.