Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, samráð vegna fyrirhugaðrar lokunar Laugavegarins og nærliggjandi gatna.
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 5 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 41
26. júní, 2019
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram eftirfarandi  tillaga  áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: Flokkur fólksins leggur til að komið verði á markvissu samráði við rekstrar- og hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðrar varanlegrar lokunar verslunargatna í miðborginni. Meirihluti borgarinnar er með þessari ákvörðun sinni að valta yfir á þriðja hundrað rekstraraðila við Laugaveg sem hafa með undirskrift sinni mótmælt þessari ákvörðun og óttast um afkomu sína. Með því að keyra þessa ákvörðun í gegn í óþökk og í andstöðu svo margra sem eiga hagsmuna að gæta er yfirvofandi stór ágreiningur og hugsanleg kostnaðarsöm málaferli gagnvart Reykjavíkurborg. Flokkur fólksins fer fram á að tekið verði tillit til þeirra undirskrifta sem afhentar voru borgarstjóra fyrir borgarstjórnarfund 2. apríl s.l. þar sem um 90% rekstraraðila sýndu andstöðu sína í verki varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir? Jafnframt hafa samtök eldri borgara og öryrkja lýst stórum áhyggjum sínum um aðgengi þeirra að þessum rótgrónu verslunargötum. Í drögum meirihlutans að Lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar segir: Borgarbúar eiga að hafa skýran og skilgreindan rétt til að fara fram á að grípa inn í ákvarðanir. Miklar líkur eru á að hér sé verið að brjóta sveitarstjórnarlög. Flokkur fólksins trúir því að setjist aðilar niður verði hægt að sætta sjónarmið og aðlaga  verslunargötur miðborgarinnar að þörfum borgarbúa bæði í nútíð og framtíð. Tillögunni fylgir greinargerð ódags.  Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði vísað frá. Tillögu vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.
Svar

Fulltrúi Pírata, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Viðreisnar bóka: “Reynslan af göngugötum í miðborg Reykjavíkur er góð og ánægja Reykvíkinga mikil líkt og kannanir staðfesta. Göngugötur skapa rými fyrir fólk og bæta mannlíf. Þá hafa erlendar athuganir sýnt að velta verslana eykst þegar göngugötur eru opnaðar. Við undirbúning varanlegra göngugatna í Reykjavík er víðtækt samráð algjört leiðarstef, svo hefur verið hingað til og verður áfram. Sem dæmi má nefna opið samráð í Ráðhúsi Reykjavíkur dagana 28. janúar til 3. febrúar og opinn samráðsfund með veitingafólki, verslunarrekendum, ferðaþjónustu- og vöruflutningaaðilum. Þá á borgin í reglulegu og góðu samtali við Öryrkjabandalag Íslands og fleiri hagsmunafélög auk þess sem á vegum borgarinnar starfar öflug aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks. Einnig er vert að benda á að í maí var tilkynnt að aðgengisfulltrúar ÖBÍ muni á næstunni gera úttekt á aðgengismálum fatlaðra á ýmsu stöðum í borginni, þar með talið á Laugavegi. ”