Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins í umhverfis- og heilbrigðisráði lögðu fram tillögu um opinn fund í ráðinu hinn 8. maí s.l. og að honum yrði streymt almenningi til upplýsingar. Það var ánægjulegt að tekið var jákvætt í þá tillögu en að sama skapi vekur það furðu að ekkert samráð var við minnihlutann í ráðinu um fundinn, hvorki hvenær né hvar hann yrði haldinn eða um dagskrá fundarins. Þá var einnig tekin einhliða ákvörðun um að þetta yrði sameiginlegur fundur með skipulags- og samgönguráði en eins og tillagan kvað á um var um að ræða að umhverfis- og heilbrigðisráð héldi opinn fund um umhverfismál en ekki sameiginlegan fund með öðrum ráðum. Í ljósi þess að borgarstjórn er fjölskipað stjórnvald hefði verið rétt að minnihlutinn hefði fengið tækifæri til að koma málum á dagskrá fundarins. Mörg brýn umhverfismál er nauðsynlegt að ræða s.s. yfirvofandi umhverfisslys í Skerjafirði með fyrirhuguðum landfyllingum, friðun strandlengjunnar, vatnsbúskapinn í Vatnsmýri og friðlýsingu Elliðarárdalsins svo fátt eitt sé nefnt. Af þessum sökum ítreka borgarfulltrúarnir ósk sína um opinn fund í umhverfis- og heilbrigðisráði þar sem þau umhverfismál sem að ofan eru talin verða á dagskrá fundarins.