Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem barst borgarráði 2. maí 2019 og var vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs þar sem tillögunni var vísað til umsagnar skrifstofu samgöngustjóra 29. maí 2019. Einnig er lögð fram umsögn dags. 20. ágúst 2020.
Svar
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.
Bókanir og gagnbókanir
Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
Eins og kemur fram í umsögn sviðsins ber hjólreiðamönnum á gangstéttum og göngustígum skv. 43. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 að víkja fyrir gangandi. Ekki fæst séð að algengur hraði hjólreiðamanna sé 60 km/klst. Unnið er að aðskilnaði hjóla- og göngustíga í hjólreiðaáætlun og með áframhaldandi uppbyggingu öflugs hjólastíganets í borginni.
Flokkur fólksins
Tillaga Flokks fólksins um að gera hjólareiða-hraðareglur og einstaka hraðahindranir í öryggisskyni þar sem það á við hefur verið felld. Einnig var lagt til að aðskilja hjólreiðar og gangandi vegfarendur eins og kostur er. Í svari frá samgöngustjóra kemur fram að yfirvöld telja það vænlegra til árangurs að nota yfirborðsmerkingar, til áminningar um gagnkvæma tillitssemi vegfarenda og þar sem breytingar verða á eðli umferðar, auk leiðbeinandi merkinga á stigamót, heldur en að setja sérstakan hámarkshraða á stíga eða með uppsetningu hraðahindrana. Eins og skipulagsyfirvöld vita þá hefur hjólreiðaslysum fjölgað samhliða fjölgun hjólreiðafólks svo þörfin fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir er mikil. Við hjólaflóruna hafa bæst rafskútur og rafhlaupahjól. Nú þegar hafa verið skráð nokkur slys. Sums staðar nægir ekki að setja aðeins upp merkingar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þróuninni í ljósi reynslu annarra þjóða. Áður hefur fulltrúi Flokks fólksins bókað um að víða skortir á að innviðir séu tilbúnir að taka við öllum þessum hjólanýjungum og fjölgun þeirra sem nota hjól sem ferðamáta. Ávallt ætti að skipuleggja hjóla- og göngustíga í öruggri fjarlægð frá umferðarþungum vegum og öruggt bil þarf einnig að vera á milli hjólreiðafólks og gangandi vegfarenda.