Borgarráð 6.6.'19: Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að rýmka aftur reglur um vistvæna bíla - R19060057 Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg rýmki aftur reglur um hvaða bílar teljist vistvænir og þeir sem það teljast geti lagt frítt í gjaldskyld bílastæði í allt að 90 mín. Meirihlutinn í borginni hefur gefið sig út fyrir að vilja vistvæna borg. Sérstaklega hefur verið horft til bíla í því sambandi. Það kom því á óvart þegar Reykjavíkurborg um áramót 2011 herti reglur um hvaða bílar teljast visthæfir og hverjir ekki. Frá 2011 hafa visthæfir bílar getað lagt frítt í gjaldskyld bílastæði borgarinnar í allt að níutíu mínútur. Með hertum reglum féllu fjöldi bifreiða úr visthæfa flokknum með breytingunum og gátu eigendur ekki lengur nýtt sér þennan valkost. Áður töldust bílar visthæfir ef þeir losuðu minna en 120 grömm af koltvísýringi á hvern kílómetra í blönduðum akstri en þetta mark hefur nú verið lækkað niður í hundrað grömm. Bifreiðar sem ganga fyrir vetni, rafmagni og metani falla einnig í flokk visthæfra ökutækja. Bílarnir mega í mesta falli vera 1.800 kílógrömm að þyngd og mega ekki vera á negldum vetrardekkjum.