Fyrirspurn
Tillaga Flokks fólksins að meirihlutinn í borgarstjórn og skipulags- og samgönguráði eigi alvöru og heiðarlegt samtal við hvern einn aðila sem sendi borgarstjórn opið bréf í maí s.l. og ræði afstöðu þeirra og óskir hvað varðar fyrirkomulag á Laugavegi og Skólavörðustíg. Í bréfinu segir: „Við sem skrifum þetta opna bréf rekum öll fyrirtæki sem hafa starfað í miðbænum í 25 ár eða lengur. Samanlögð viðskiptasaga fyrirtækjanna er 1.689 ár. Við höfum því lifað tímana tvenna. Við höfum staðið vaktina þrátt fyrir tilkomu Kringlu, Smáralindar og fleiri verslunarkjarna víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu. Sumarlokanir gatna í miðbænum frá árinu 2012 og síendurteknar skyndilokanir hafa leitt af sér mikinn samdrátt í verslun. Viðskiptavinir venjast af því að versla hér á þessu svæði þegar götunum er lokað og ástandið versnar í hvert sinn sem lokað er að nýju. Á þetta hefur ítrekað verið bent, meðal annars með veltutölum, en við höfum talað fyrir daufum eyrum borgaryfirvalda. Svo fór að Miðbæjarfélagið kærði ákvörðun um lokun gatna til ráðherra og það mál fór einnig fyrir umboðsmann Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að staðið hefði verið að lokunum með ólögmætum hætti. Borgaryfirvöld létu það álit sem vind um eyru þjóta og héldu uppteknum hætti.