Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins úr borgarráði, um afdrif tillögu um að banna vinstri beygju inn á Bústaðarveg - R19060230
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 5 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 49
25. september, 2019
Annað
Fyrirspurn
BORGARRÁÐ 27. júní 2019: Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um afdrif tillögu um að banna vinstri beygju inn á Bústaðarveg - R19060230  Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja af hverju tillögunni um að loka fyrir beygju til vinstri inn á Bústaðarveg hvern virkan dag frá kl 16 til 18 í tilraunaskyni var ekki vísað til Vegagerðarinnar og SSH á fundi Skipulags- samgönguráðs 26. júní. Tillaga fjallaði um að þar yrðu ljósin tekin  úr notkun á þessum tíma. Með slíkri framkvæmd má draga verulega úr töfum vegfarenda á leið sinni suður og norður eftir Breiðholtsbrautinni. Það eru fjölmargir sem styðja þessa tillögu enda myndi þetta geta virkilega leyst úr mjög erfiðum flöskuháls sem þarna myndast. Enda þótt mæling hafi einhvern tímann sýnt að þetta sé ekki til bóta er ekki þar með sagt að það myndi ekki gera það núna. Þetta er eitt dæmi þess að borgarmeirihlutinn virðist einfaldlega ekki vilja gera neitt í umferðarmálum og þráast við þegar koma góðar tillögur til bóta. Er það vegna þess að verið er að gera stöðuna eins erfiða og hægt er til að sýna fram á mikilvægi borgarlínu og útrýma bílnum úr miðbænum? En eitt útilokar ekki annað. Borgarlína kemur ekki á morgun og þangað til er sjálfsagt að grípa til aðgerða strax sem leysir helsta vandann. Borgarfulltrúa finnst borgarmeirihlutinn sýna mikið andvaraleysi og áhugaleysi en vill þessi meirihlutinn lítið gera fyrir bílaeigendur í borginni. Lágmarksviðbrögð væri að vísa þessum tillögum í vinnu Vegagerðarinnar og SSH og er spurt hér af hverju það var ekki gert. Fyrirspurn vísað frá. 
Svar

Fulltrúi Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúi Viðreisnar bóka: Fyrirspurnir eru mikilvægt tæki sem kjörnir fulltrúar hafa til að afla upplýsinga um það sem fram fer í stjórnkerfi sveitarfélagsins. Fyrirspurnum er ekki ætlað að krefja aðra kjörna fulltrúa um frekari réttlætingu fyrir atkvæði sínu enda eru kjörnir fulltrúar eru einungis bundnir af eigin sannfæringu þegar þeir greiða atkvæði um tillögur annarra fulltrúa. Viðkomandi tillaga var felld og hægt að leita í fundargerð eftir frekari útskýringu á afstöðu kjörinna fulltrúa.