Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi legu Sundabrauta, sbr. 31. lið fundargerðar frá 15. apríl 2020. Einnig fylgir umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu skipulagfulltrúa dags. 15. apríl 2020.
Bókanir og gagnbókanir
Flokkur fólksins
Fulltrúi Flokks fólksins var með fyrirspurnir sem varðar legu Sundabrautar og hvenær verði lokið við að skipuleggja legu hennar með þeirri nákvæmni að unnt verði að styðjast við það skipulag þegar fjallað er um næstu verklegar framkvæmdir með fram Sundum. Í svari segir að framkvæmd Sundabrautar sé í höndum Vegagerðarinnar. Svarið er hreinn útúrsnúningur. Spurt var um legu brautarinnar en ekki hver hefði umsjón með framkvæmdum eða framkvæmdarhraða. Hvar Sundabraut liggur er skipulagsmál og er því í höndum skipulagsyfirvalda borgarinnar en ekki Vegagerðarinnar. Það er því með ólíkindum hvernig umhverfis- og skipulagssvið getur svarað spurningu kjörins fulltrúa um skipulagsmál eins og um legu Sundabrautar með svari um hver ber ábyrgð á framkvæmd verksins? Óskað er eftir meiri nákvæmni í svörum við fyrirspurnum kjörinna fulltrúa. Hverju máli fylgir ákveðin vinna bæði fyrir kjörinn fulltrúa og starfsmenn og það er miður ef endurtaka þurfi fyrirspurnina einungis vegna þess að svar umhverfis- og skipulagssviðs er út í hött.