Sumargötur 2020
Síðast Samþykkt á fundi fyrir 4 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 74
27. maí, 2020
Samþykkt
Fyrirspurn
Lagt fram bréf Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 12. maí 2020, tillaga um sumargötur þ.e. tímabundnar göngugötur í miðborginni frá 5. júní til 1. október.  Bréf til rekstraraðila og athugasemdir þeirra kynntar.
Svar

Samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins Eyþór Laxdal Arnalds greiðir atkvæði gegn tillögunni, Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir sitja hjá.

Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Nú hefur meirihlutinn samþykkt að stækka göngugötusvæðið. Bréf var sent til rekstraraðila þann 18.5. og þeir beðnir að svara fyrir 22.5 hvort þeir væru jákvæðir eða neikvæðir að loka Laugavegi frá Frakkastíg og niður að Lækjargötu. Þetta kallar meirihlutinn að hafa samráð.  Þetta eru óásættanleg vinnubrögð og ekki í samræmi við góða stjórnsýslu. Þetta heita sýndarvinnubrögð.  Hér er tekin ákvörðun sem ekki er byggð á upplýsingum. Mikilvægt er að gera  einhverja lágmarks rannsóknarvinnu t.d. mæla umferð, kanna hvaða áhrif lokun Laugavegarins hefur haft á  umferð um íbúagöturnar í kring. Gera þarf alvöru mælingar á hvort mannlíf og verslun hafi aukist með fleiri göngugötum eins og haldið er fram. Rekstraraðilar hafa sent margar athugasemdir. Þeir eru uggandi yfir að vegfarendum muni fækka enn meira við þessa breytingu. Bent hefur verið á að bæta megi ástandið með því að hafa t.d. frítt í bílastæðahús um helgar eins og Flokkur fólksins hefur lagt til. Ekki verður ferðamönnum fyrir að fara á árinu að heitið geti svo nægt er nú plássið. Göngugötur laða ekki að fólk nema úti sé sól og blíða. Niðurstöður rannsókna eru afgerandi. Meirihluti svarenda eru ekki hlynntur göngugötum og munu forðast miðborginni verði um frekari göngugötur að ræða. Miðbær Reykjavíkur er orðinn að hálfgerðum draugabæ. 
  • Miðflokkur
    Þann 18. maí sl. var send „könnun“/bréf um tilkynningu lokunar Laugavegarins til allra rekstraraðila á þeim stóra kafla sem á að loka. Bréfið barst rekstraraðilum 20. maí, 21. maí var rauður dagur og því sáu margir bréfið ekki fyrr en á skiladegi athugasemda 22. maí. Þetta er fráleit stjórnsýsla. Á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 13. maí átti að keyra málið í gegn. Fékk minnihlutanum málinu frestað um viku og sagði ég að ekki væri hægt að keyra valdboð í gegn og fara svo í sýndarsamráð. Á fundinum var því lofað að starfsmenn ráðsins færu og tækju tali hvern og einn rekstraraðila áður en málið kæmi aftur fyrir ráðið 20. maí. Málið var ekki á dagskrá ráðsins þá og var því borið við að ekki hafi unnist tími til að vinna það nægilega vel. Greinilega brast kjarkurinn að hitta rekstraraðila og brugðið á það ráð að senda bréf. Ekkert samtal – ekkert samráð. Nú þegar búið er að rústa miðbænum er boðuð rústabjörgun með peningum upp á 50 milljónir sem eiga að fara í að markaðsetja miðborgina sem eftirtektarverðan og spennandi áfangastað. Ekki hafa komið neinar lausnir hvað varðar öryggismál og aðgengi sjúkrabíla og slökkviliðs að þessu svæði.
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Það stefnir í bjart sumar á Laugaveginum fyrir gesti og gangandi. Nú í ár mun göngusvæðið ná alla leið upp að Frakkastíg. Við lestur umsagna hagaðila kemur fram að á hinum nýja kafla milli Klapparstígs og Frakkastíg eru rekstraraðilar sem við telja göngugötur ekki nýtast sér en jafn margir aðilar telja að göngugötur styrki sinn rekstur og eru með hugmyndir um hvernig þeir munu nýta sér þær. Við sendum öllum þeim frábæru aðilum sem reka verslanir, veitingastaði og aðra þjónustu við Laugaveg hlýjar kveðjur og vonumst jafnframt til að sjá troðfullan miðbæ í sumar, með tilheyrandi mannlífi og viðskiptum.