-
Miðflokkur
Samgöngumál og innviðauppbygging á að vera í forgangi á landinu öllu. „Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur“ var kynnt í dag á fundi skipulags- og samgönguráðs. 8,2 milljarðar koma inn í verkefnið úr samgöngusáttmálanum. Átta þúsund og tvöhundruð milljónir í hjólastíga. Sjá ekki allir peningasóunina? Hvernig má það vera að íslenska ríkið sé að spandera sköttum landsmanna með þessum hætti og í gæluverkefni borgarstjóra og meirihlutans? Snjóflóðavarnir, vegakerfi, einbreiðar brýr á þjóðvegi 1, og aðrir innviðir landsins eru í molum. Sætta landsmenn sig við þessa geggjuðu peningasóun úr vösum landsmanna? Hvar er Sundabrautin? Hvað er samgöngumálaráðherra að hugsa?
-
Flokkur fólksins
Bókun Flokks fólksins um minnisblað Eflu og yfirlitskort, dags. 21. apríl 2020, tillaga hjólahóps SSH og Vegagerðarinnar um uppbyggingu stofnleiða hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu næstu 15 ár með fjármagni samgöngusáttmála. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að gott er að stefna að því að hjólastígar séu og verði hugsaðir sem samgönguæð.
Hjólreiðafólki þykir almennt best að hjóla á láréttri braut þegar verið er að nota hjól sem samgöngutæki. Þess vegna er mikilvægt að slíkir stígar liggi samhliða hæðarlínum, en brekkur ætti frekar að forðast. Í þessu gildir að betri er krókur en kelda. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir sýnist að hægt sé að huga betur að þessu atriði eða í það minnsta þarf að hafa þetta í huga og fylgja þeim reglum sem að þessu snúa þegar verkefninu framvindur.
-
Sjálfstæðisflokkur
Samfélagið hefur óhjákvæmilega tekið breytingum í kjölfar COVID-19 faraldursins. Fólk hefur séð jákvæð áhrif þess að ganga eða hjóla um borgarlandið. Göngu- og hjólastígar borgarinnar hafa aldrei verið jafn þétt setnir, hvort sem um er að ræða hjólandi vegfarendur eða gangandi. Þetta sýna talningar borgarinnar glöggt, en vegfarendum hefur fjölgað gífurlega í samanburði við aprílmánuð síðasta árs. Hjólabúðir borgarinnar standa flestar tómar, biðraðir hafa náð langt út úr dyrum og eftirspurnin hefur aldrei verið meiri. Mikilvægt er að styðja við þessa jákvæðu þróun með áframhaldandi uppbyggingu göngu- og hjólastíga í borginni, með áherslu á fjölgun stíga og aðgreiningu gangandi og hjólandi vegfarenda. Eins leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokks áherslu á að borgin blási til stórsóknar í uppbyggingu upphitaðra göngu- og hjólastíga í borgarlandinu svo styðja megi við gangandi og hjólandi vegfarendur allan ársins hring. Við leggjum ríka áherslu á greiðar samgöngur fyrir alla – og mikilvægi þess að borgin styðji við margvíslega ferðamáta og tryggja borgarbúum frelsi og val um fjölbreytta samgöngukosti.
-
Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
Ekkert eykur hjólreiðar og tryggir öryggi hjólreiðafólks jafnmikið og öflugir innviðir. Með samgöngusáttmálanum er loks stigið það skref að ríkið og sveitarfélög líta á hjólreiðar sem fullgildan faramáta til jafns við aðra. Við fögnum þessari framtíðarsýn og hlökkum til að sjá henni hrint í framkvæmd.