Fyrirspurn
Fulltrúi Flokks fólks leggur til að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum, skólalóðum og útivistarsvæðum. Hér er aftur staðfest, og nú í ályktun íbúasamtaka í vesturhluta Reykjavíkur, hvernig samráð er hunsað. Fólki er boðið upp á að koma með tillögur og athugasemdir sem síðan er varla litið á. Í ályktuninni er lýst áhyggjum af hvernig þéttingastefna meirihlutans er farin að ganga á græn svæði borgarinnar. Segir í ályktuninni að "íbúar hafi ítrekað bent á þessa þróun í gegnum athugasemdir sínar við deiliskipulagsvinnu borgarinnar. Málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga ber þess merkis að vera eingöngu formlegs eðlis þar sem íbúum gefst í reynd ekki tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif. Réttur til athugasemda er lítils virði ef einungis er tekið mark á athugasemdum frá opinberum aðilum en látið hjá líða að taka mark á athugasemdum íbúa. Samráðsleysið við borgarbúa sem ítrekað benda á hvernig auka megi gæði almenningsrýma er áberandi." Svo virðist sem engin takmörk séu þegar þétta á byggð. Ofuráhersla á þéttingu byggðar má aldrei vera gerð á kostnað grænna svæða í borginni.