10. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 um göngugötur, minnisblað Umhverfis- og skipulagssviðs
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 75
3. júní, 2020
Annað
Fyrirspurn
Lagt fram minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 3. apríl 2020.
Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Lagt er fram minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingi og Samgöngu- og Sveitarstjórnaráðuneytisins dags. 3. apríl 2020. Fulltrúi Flokks fólksins finnst að skipulagsyfirvöld eigi að leyfa þessu að standa eins og þetta er og ekki að vera að skipta sér frekar að þessu orðalagi að sinni. Það er ástæða fyrir því að löggjafinn orða hlutina með þessum hætti í nýjum umferðarlögum og má ætla að mikil vinna liggi þarna að baki. Hér er mikilvægt að huga að þeim sem eiga við hreyfivanda að stríða og að tryggja þeim sem þurfa aðgengi upp að dyrum að þeir komist greiðlega. Flokkur fólksins vill leggja áherslu á að bílastæði séu í göngugötum í neyðartilvikum fyrir þann sem þarf akstur upp að dyrum og greið leið þarf að vera fyrir fatlaða að fara inn á göngugötur t.d. í hjólastólum.
  • Miðflokkur
    Reykjavíkurborg hefur ekki lagasetningarvald – það vald er hjá Alþingi. Reykjavíkurákvæði nýrra umferðarlaga fjallar um göngugötur. Í 10. gr. laganna kemur fram að umferð vélknúinna ökutækja um göngugötur er óheimil en umferð vélknúinna ökutækja í akstursþjónustu fatlaðra, handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutninga er heimil. Skilja má á erindi þessu frá meirihlutanum að verið sé að fetta fingur út í það að Alþingi hafi breytt frumvarpinu í meðförum þingsins þar sem bætt var við upptalninguna „handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða“ á eigin bílum. Nær öruggt er að þessi breytingatillaga hafi komið eftir ábendingu frá Öryrkjabandalaginu. Reykjavíkurborg gagnrýnir þetta undanþáguákvæði því það býður ekki upp á sveigjanleika eða aðlögun að mismunandi aðstæðum og er því ill- eða óframkvæmanlegt í framkvæmd eins og segir í erindinu. Tæplega 8.000 stæðiskort eru í gildi fyrir hreyfihamlaða á landinu öllu og tæplega 5.300 kort á höfuðborgarsvæðinu. Allir þessir aðilar mega því keyra um göngugötur í Reykjavík. Aðgengi þessa viðkvæma hóps er mótmælt og talið að þessir aðilar hafi ekkert erindi að göngugötum þar sem ekki eru bílastæði þar. Þessar skoðanir eru fordæmafullar.