Lögð fram umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur 2019-2023, dags. 5. júní 2020, til samþykktar að loknu umsagnarferli, ásamt bréfi Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 6. júní 2020.
Svar
Samþykkt.
Bókanir og gagnbókanir
Flokkur fólksins
Kynnt er skýrsla um umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur 2019-2023. Fjallað er um núverandi stöðu slysa og þróun sem og helstu áherslur. Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um eldri borgara og umferðaröryggi. Fram kemur að rannsóknir erlendis frá hafa sýnt að ferðum fækkar þegar fólk eldist sem er eðlilegt. Eldri borgarar koma síður í miðbæinn eftir umdeildar framkvæmdir sem dregið hafa úr aðgengi að hinum áður vinsæla Laugavegi. Aðgengi hjólandi er gott en eldri borgarar ferðast ekki mikið um á hjólum. Eldri borgarar leggja sjaldan í bílastæðahús af ótta við að villast eða lenda í vandræðum með greiðslukerfið. Huga þarf sérstaklega að öryggi þessa hóps í umferðinni. Fulltrúi Flokks fólksins fagnaði því þegar heimild var veitt í umferðarlögum að fatlaðir geti ekið göngugötur. Af öðrum öryggisþáttum má benda á að lausnir við að bæta öryggi takmarkast af því sem hægt er að gera umhverfislega jafnt sem kostnaðarlega. Að aðskilja andstæðar akreinar með vegriði er oft hægt að koma við. Sömuleiðis ætti að byggja göngubrýr alls staðar þar sem það er hægt. Að aka á þungum bílum veitir vernd en minnkar samsvarandi hjá þeim sem aka á léttum bílum. Til bóta væri að fækka þungum bílum innan þéttbýlasta svæði borgarinnar.
Miðflokkur
Athygli vekur að aukning er á slysum á gangandi og hjólandi vegfarendum. Það er mikið áhyggjuefni en sýnir vel þróunina. Gangandi og hjólandi eru algjörlega óvarðir og hjálmanotkun er ekki eins og skyldi – það er líka áhyggjuefni. Bent hefur verið á að ekki eru gerðar kröfur á hraðatakmarkanir hjólandi vegfarenda. Lögreglan hefur varað við að ekki eru notaðir hjálmar á rafhlaupahjólin sem eru mjög að ryðja sér til rúms í borgarlandinu en þau eiga eflaust eftir að skora hátt í slysatíðni, því miður því um skemmtilegan ferðamáta er að ræða á styttri leiðum. Enn á ný sannast að ekki má bíða lengur með að taka upp nýjan ljósastýringarbúnað í Reykjavík sem er forgangsmál í samgöngusáttmálanum. Snjalltæknin kemur til með að leysa mörg vandamál og fækka slysum. Meirihlutinn setur sig mjög á móti þeim hugmyndum og er það fullkomið ábyrgðarleysi.
Sjálfstæðisflokkur
Mikilvægt er að auka umferðaröryggi í Reykjavík, meðal annars með aðgreindum hjóla- og göngustígum, bættri ljósastýringu og stjórnun á hraða. Gögnin í Umferðaröryggisáætluninni eru frá 2012-2016. Eðlilegt væri að fá nýjustu gögn.
Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
Umferðaröryggisáætlun 2019-2023 er mikilvægur áfangi. Stefnt er á að Reykjavíkurborg taki upp núllsýn í umferðaröryggismálum, þ.e. þá langtímasýn að enginn hljóti varanlegt heilsutjón sökum umferðarslysa. Sett eru markmið um fækkun slysa, stöðu innviða og hegðun vegfarenda, þ.m.t. hlutfall þeirra sem nýta sér virka ferðamáta. Í framhaldinu verður ráðist í aðgerðir í hverfum t.d. með það að markmiði að lækka umferðarhraða í íbúðarhverfum. Nauðsynlegt er að fylgjast áfram með þróun mála t.d. aukinni notkun smærri raftækja og styðja við þá þróun með bættum innviðum.