Lögð er fram fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem barst borgarráði 11. júní 2020 og var vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs. Einnig er lögð fram umsögn deildarstjóra náttúru og garða, dags. 7. júlí 2020.
Bókanir og gagnbókanir
Miðflokkur
Grjóthrúgurnar á Granda eru víst ekki grjóthrúgur að mati borgarinnar. Markmiðið með grjóthrúgunum er víst það að breyta svæðinu yfir í „náttúrlegt yfirbragð með strandgróðri.“ Nú er viðurkennt að grjóthrúgurnar voru ekki mikið ígrundaðar og boðað er þær verði lækkaðar. Þetta verk er algert flopp. Á Grandanum er fallegur úthagagróður sem þarf ekki að slá sem fellur vel að strandlengjunni og skerðir ekki útsýni íbúa, akandi, gangandi og hjólandi vegfarenda yfir á Snæfellsnesið. Þessi lífsgæði hafa nú verið skert með grjóthrúgunum. Fram kemur í máli borgarinnar að breyta ætti svæðinu yfir í náttúrulegt yfirbragð með strandgróðri. Þvílíkt dæmalaust rugl. Upp úr grjóthrúgunum sprettur nú njóli og annað illgresi sem á ekkert skilt við strandgróður. Dafnar illgresið svo vel í grjóthrúgunum að þær eru nánast komnar á kaf. Einnig hefur verð bent á hættu af grjóthrúgunum að í vondum veðrum gæti grjótið fokið bæði á bíla, gangandi og hjólandi vegfarendur. Ekki þarf að taka fram að gríðarleg óánægja er hjá þeim aðilum sem búa á Grandanum með þetta gríðarlega inngrip í náttúrulíf á þessu svæði sem kemur eins og skrattinn á sauðaleggnum inn á gróna og fallega strandlengju.
Flokkur fólksins
Af svari að dæma um grjóthrúgur á Eiðsgranda virðist verkefnið allt vera vanhugsað. Lagt er út í það án þess að hugsa það til enda. Lesa má í hverri línu umsagnarinnar þótt það sé ekki sagt beinum orðum að “ákvörðun um mölina var ekki mikið ígrunduð og að manirnar urðu óþarflega háar”. Hér eru enn ein mistökin í skipulagsmálum að ræða sem kosta mun borgarbúa fé. Í þessu verkefni alla vega virðist sem framkvæmdin hafi ekki verið hugsuð til enda. Fulltrúi Flokks fólks kallar eftir að meiri skynsemi sé sýnd í þessum málum og minnt er á enn og aftur að verið er að sýsla með fé borgarbúa.