Fyrirspurn
Lagt er til að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Lagt er til að slökkviliðsstjóri og byggingarfulltrúi skipuleggi og sjái um framkvæmd aðgerða. Harmleikurinn sem átti sér stað þegar kviknaði í illa búnu húsnæði á Bræðraborgarstíg átti sér aðdraganda. Aðbúnaður í húsinu hafði áður komið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Í þessu tilviki var um að ræða húsnæði sem nýtt var til útleigu umfram það sem eðlilegt getur talist þrátt fyrir að aðeins væri einn brunaútgangur á húsinu. Þá höfðu verið gerðar breytingar á húsinu án tilskilinna leyfa. Í slíkum tilvikum fer ekki fram skoðun eftirlitsmanna á fyrirhuguðum teikningum og öryggismat. Það skiptir máli að eftirlit með aðbúnaði og brunavörnum sé ekki aðeins virkt á framkvæmdarstiginu. Það þarf að efla frumkvæðiseftirlit slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa. Lagt er jafnframt til að fagaðilar greini hvað þarf að efla í eftirliti með brunavörnum og aðbúnaði mannvirkja og hvort þörf sé á frekari eftirlitsheimildum eða auknum mannafla eða fjármagni í verkefnið.
Flokkur fólksins leggur einnig til að áhersla verði lögð á vitundarvakningu meðal almennings, og þá sérstaklega fólks á leigumarkaði, um brunavarnir og aðbúnað.