Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
Í byrjun sumars var ákveðið að setja ekki Hverfisskipulag Breiðholts í lögbundið samþykktar- og samráðsferli líkt og til stóð heldur bæta við ferlið auknu samráði. Það hefur falist í kynningum á heimasíðum verkefnisins, samfélagsmiðlum og dagblöðum. Einnig hefur hverfisskipulagið verið kynnt í Gerðubergi þar sem öllum hefur boðist að mæta. Þar var hægt að rýna allar tillögur, greiningarvinnu og helstu forsendur skipulagsins. Þar voru til svara starfsfólk skipulagsfulltrúa sem unnið hefur við hverfisskipulagið síðustu ár. Einnig verður skipulagið kynnt með sambærilegum hætti í Mjódd. Þrír göngutúrar hafa verið skipulagið með íbúum um hverfið til að fara yfir tillögurnar, hitta faglega ráðgjafa skipulagsins, ræða og koma með ábendingar. Allt er þetta viðbótarsamráð við það samráð sem nú þegar hefur verið haft við gerð Hverfisskipulags Breiðholts sem fólst í því að virkja alla aldurshópa, með þátttöku grunnskóla, rýnihópa og opnum íbúafundum. Að lokum er rétt að benda á að lögbundið samráð með lögformlegri auglýsingu mun einnig eiga sér stað og gefst þá öllum tækifæri á að koma sínum athugasemdum á framfæri.