Fyrirspurn
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld borgarinnar setji rafmagns- og metan bíla á lista yfir það sem þau kalla vistvænan ferðamáta. Í nýju hverfisskipulagi Breiðholts er farið mörgum orðum um vistvænan ferðamáta en ekki minnst á vistvæna bíla. Áhersla er lögð á að gera vistvænum ferðamátum hátt undir höfði og að aðgengi allra sé tryggt, óháð hreyfigetu. Ekki einu orði er minnst á rafmagns- eða metanbíla heldur einungis hjól og síðan væntanlega borgarlínu. Telja skipulagsyfirvöld þar með að hreyfihamlaðir sem dæmi notist frekar við hjól en bíl? Nú eru aðeins 10 ár þar til bannað verður að flytja inn bensín- og díselbíla. Skipulagsyfirvöld verða að fara að sætta sig við að þau koma ekki öllum á hjól og þurfa því að viðurkenna að einkabíllinn mun áfram verða einn helsti ferðamáti borgarbúa. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að nú ætti að leggja alla áherslu á að styðja og hvetja til orkuskipta og taka rafmagns og metanbílinn inn í flokkinn "vistvænn ferðamáti".
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.