Fyrsti áfangi borgarlínu, Ártúnsholt - Hamraborg,
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 80
2. september, 2020
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða, um tillögu að matsáætlun fyrsta áfanga Borgarlínu, Ártúnsholt - Hamraborg, dags. 25. ágúst 2020.
Bókanir og gagnbókanir
  • Miðflokkur
    Hér er á ferðinni umsögn um tillögu að matsáætlun fyrsta áfanga Borgarlínu, Ártúnsholt – Hamraborg, frá Reykjavíkurborg til Skipulagsstofnunar. Margt er þar sem vekur athygli en þó eru nokkur atriði mjög afhjúpandi svo ekki sé meira sagt. Umsögnin afhjúpar að verkefnið er komið mjög stutt hugmyndafræðilega hvað varðar tæknihlið borgarlínu. Í kaflanum um hljóðvist segir: „Hér vantar eina breytu sem er ekki þekkt á þessari stundu sem er hávaði frá væntanlegum ökutækjum Borgarlínunnar. Mat á áhrifum ætti að draga fram mögulega valkosti t.d. hljóðláta rafmagnsvagna og eða vagna með háværari vélar.“ Jafnframt segir í kaflanum um loftgæði: „Líkt og með hljóðvist ætti að reyna að leggja mat á hvers eðli ökutæki Borgarlínunnar verða með tilliti til áhrifa á loftgæði, bæði útblástur og svifryk.“ Er þetta eitthvert grín. Til stendur að leggja í fleiri tugi milljarða ef ekki hundraða í borgarlínu, breyta öllu skipulagi með þrengingarstefnu og rústa aðgengi fjölskyldubílsins að götum borgarinnar og enn er ekki farið að ræða hvort borgarlínuvagnar verði rafmagnsvagnar, eða háværir, mengandi dísel/bensín vagnar. Er ekki tímabært að ríkisstjórnin og nágrannasveitarfélög Reykjavíkur vakni og átti sig á hvaða flopp þetta verkefni er sem keyrt er áfram af borgarstjóra. Það er ekki verkefni þessara aðila að uppfylla kosningaloforð Samfylkingarinnar.
  • Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
    Það hefur komið skýrt fram að Borgarlínan verði drifin áfram með vistvænum innlendum orkugjafa. Niðurstöður starfshóps um val á orkugjafa er að vænta innan skamms.
  • Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
    Borgarlínuverkefnið er martröð aftan úr grárri forneskju. Illa skipulagt, illa framkvæmanlegt og engar áætlanir eru til um stofnkostnað – hvað þá rekstrarkostnað. Allt er í þoku og óvissu. Nútíminn og framtíðin eru vistvænir fjölskyldubílar, aukin hjólreiðanotkun, deilibílar og sjálfkeyrandi ökutæki. Ekkert er fast í hendi í borgarlínuverkefninu nema það að búið er að skipa „borgarlínuhóp“ sem heldur uppi stöðugum áróðri fyrir verkefninu og krafan um að ríkið komi með gríðarlegt fjármagn inn í verkefnið. Ég ítreka á ný – hvers vegna er ríkisstjórnin og nágrannasveitarfélög Reykjavíkur að vinna að því að uppfylla kosningarloforð Dags. B. Eggertssonar, Samfylkingarinnar og meirihlutans í Reykjavík?
  • Flokkur fólksins
    Umsögn um tillögu að matsáætlun fyrsta áfanga Borgarlínu, Ártúnsholt - Hamraborg. Það virðist vera óvissa um samgöngur til og frá borgarlínu og er hér átt við tengsl við aðrar samgönguleiðir og hverjar þær eiga helst að vera. Hver verður fjöldi bílastæða við borgarlínu? Búast má við að margir munu koma akandi að borgarlínu og geyma bíl sinn við stöðina yfir daginn.  Það þarf almennt að huga vel að samgönguháttum með tilliti til breytinga sem þarf á öðrum samgönguleiðum en  borgarlínunni. Einnig þarf að koma sem fyrst með áætlun um hvernig orkugjafar eiga að vera. Metanvagnar, rafmagnsvagnar á rafhlöðum eða sítengdir vagnar við rafmagnslínu. Allt slíkt hefur áhrif á hávaða frá borgarlínunni svo og útblástur og svifryk. Þetta eru svona þættir sem margir borgarbúar eru að velta fyrir sér. Það liggur þó fyrir að orkugjafinn á að vera vistvænn, innlendur orkugjafi eftir því sem fram hefur komið hjá skipulagsyfirvöldum. Fulltrúi Flokks fólksins myndi ætla að orkugjafinn verði metan þar sem ofgnótt er til af því á söfnunarstað og verður meira þegar GAJA verður orðin virk. Það væri ánægjulegt ef lagst yrði á eitt um að nýta þennan vistvæna, innlenda orkugjafa sem SORPA, fyrirtæki í eigu Reykvíkinga af stærstum hluta framleiðir. Metan er nú brennt á báli, sóað þar sem ekki hefur tekist að koma því á markað.