Fyrirspurn
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að kannaðir verði aðrir og mun ódýrari kostir til að liðka fyrir umferð frá Rjúpnavegi og norður á Breiðholtsbraut, svo sem með einfaldari vegartengingu ofar í Vatnsendahvarfi á milli Rjúpnavegar, Tónahvarfs og Breiðholtsbrautar, án mislægra gatnamóta þar. Einnig er lagt til að leyfa akstur slökkvibifreiða á milli Salahverfis í Kópavogi og Seljahverfis í Breiðholti með tengingu úr Jaðarseli neðan Lambasels, en þar er nú fyrirhugað að leyfa umferð strætisvagna. Vinir Vatnsendahvarfs hafa bent á að fjöldi fólks nýtir sér hæðina daglega til göngu og hjólaferða, sem og til að njóta útsýnisins. Vatnsendahvarf (einnig þekkt sem Vatnsendahæð) er gróðursælt útivistarsvæði sem liggur á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs. Fyrirhugaður Arnarnesvegur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut sem á að vera lagður að árið 2021 mun skera hæðina í tvennt og breyta algjörlega ásýnd og notagildi hæðarinnar til frambúðar. Vegaframkvæmdin byggir á nær 18 ára gömlu umhverfismati. Vegna þess, sem fjölmargir þ.m.t. Vinir Vatnsendahvarfs telja alvarleg skipulagsmistök, er áformað að vegurinn kljúfi vesturhlíð Vatnsendahvarfs og eyðileggja þar með verðmætt útivistarsvæði. Í nyrsta hluta þess eru hinar vinsælu skíðabrekkur upp af Jafnaseli og fyrirhuguð staðsetning fyrir Vetrargarð Reykjavíkur og nágrennis en vegurinn mun koma til með að þrengja verulega að Vetrargarðinum.