Lagt fram erindi Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur, dags. 1. október 2020, varðandi reglur Bílastæðasjóðs um úthlutun íbúakorta.
Svar
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunnar.
Bókanir og gagnbókanir
Miðflokkur
Hér birtist forneskjuhugsun meirihlutans gagnvart fjölskyldubílnum, deilibílum, bílaleigubílum og aðgengi fatlaðra. Allt í sambandi við þá ákvörðun að gera hluta Laugavegarins og hluta miðbæjarins að göngugötum er algjörlega vanhugsuð og óskiljanleg ráðstöfun. Tekið er undir með stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur að nauðsynlegt er skoða svæðaskiptingu íbúakortanna og að gera reglur Bílastæðasjóðs nútímalegri og sveigjanlegri.
Flokkur fólksins
Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur en ábendingar hafa borist vegna stífra reglna Bílastæðasjóðs um úthlutun íbúakorta. Kvartað er yfir því að ekki sé hægt að fá íbúakort nema eiga bifreið og þeir sem eru með bílaleigubíla á langtímaleigu eða um stundarsakir t.d. vegna sérstakra aðstæðna eða viðgerða á eigin bifreið fái neitun við slíkum erindum. Nú reynir á að sýna lipurð og leysa mál af þessu tagi. Bærinn er gjörbreyttur og gera þarf nauðsynlegar aðlaganir. Það er bráðnauðsynlegt að gera reglur Bílastæðasjóðs nútímalegri og sveigjanlegri og horfa á þær út frá sjónarhorni þjónustuþegans og þörfum hans fyrst og fremst.