Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, er varðar Arnarnesveg
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 84
14. október, 2020
Annað
Fyrirspurn
Fyrirhugað er að leggja Arnarnesveg og skal hann liggja þvert yfir Vatnsendahvarfið og kljúfa Vatnsendahæðina í tvennt. Þetta mun leiða til stórfelldrar eyðileggingar á náttúru og fallegs útsýnisstaðar þar sem byggja á Vetrargarð? Hvernig samræmist það grænum sjónarmiðum skipulagsyfirvalda að ætla að sprengja fyrir hraðbraut ofan í fyrirhugaðan Vetrargarð þvert yfir grænt svæði með fjölbreyttri náttúru?
Svar

Vísað frá með fjórum atkvæðum, fulltrúa Samfylkingarinnar, fulltrúa Viðreisnar og fulltrúa Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Arnarnesvegur mun ekki skerða uppbyggingu Vetrargarðsins í Breiðholti. Formlegar fyrirspurnir eru til af afla gagna fyrir kjörna fulltrúa en ekki til að krefja aðra kjörna fulltrúa um pólitíska afstöðu til einstakra mála. Fyrirspurninni er því vísað frá.
  • Flokkur fólksins
    Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar fyrirhugaðan Arnarnesveg og hvernig sú framkvæmd samræmist grænum sjónarmiðum skipulagsyfirvalda hefur verið vísað frá með þeim rökum að verið sé að spyrja um pólitíska afstöðu ráðsmanna til málsins. Spurningin varðar skipulagsmál borgarinnar og er mikið í húfi. Fyrirhuguð hraðbraut sem verður klesst ofan í Vetrargarðinn mun gjörbreyta þessu umhverfi enda örstutt á milli fyrirhugaðs Vetrargarðs og hraðbrautarinnar. Skipulagsyfirvöld hafa gefið sig út fyrir að vera náttúruunnendur og með grænar áherslur en ætla engu að síður að sprengja fyrir hraðbraut á grænu svæði með fjölbreyttri náttúru og fuglalífi. Það er sérkennilegt ef skipulagsyfirvöld treysta sér ekki til að standa fyrir svörum í svo umfangsmiklu máli sem hafa mun áhrif á fjöldann allan, bæði þá sem búa á svæðinu og aðra sem kjósa að njóta útivistar og útsýnis Vatnsendahvarfsins.