Lögð fram til kynningar skýrsla með niðurstöðum úttektar SWECO á umferðarljósastýringum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 7. júní 2020, ásamt kynningarglærum og erindisbréfi samstarfshóps SSH og Vegagerðarinnar.
Bókanir og gagnbókanir
Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
Niðurstaða greiningar Sweco er að fjárfesta þurfi meira í fólki og ferlum, frekar en búnaði. Búnaðurinn stendur framarlega samanborið við aðrar borgir en koma þyrfti á mælanlegum mælikvörðum t.d. varðandi öryggi og biðtíma gangandi og hjólandi, nýta betur sóknarfæri núverandi búnaðar og auka samráð milli ólíkra aðila í ferlinu. Með stofnun formlegs samráðsvettvangs fagaðila er lagður grundvöllur að innleiðingu þessara ráðlegginga úr skýrslu Sweco.
Sjálfstæðisflokkur
Eitt af stóru tækifærum í bættri umferð er snjallvæðing ljósastýringa í Reykjavík. Greining Sweco bendir á að mælanleg markmið skortir og auka þurfi samráð við hagaðila. Þá er bent á að borgin geti bætt sig í að læra af reynslu annara borga. Gríðarleg tækifæri eru í bættri ljósastýringu enda er það sett í sérstakan forgang í samgöngusáttmála. Sýnt hefur fram á að betri ljósastýring gæti minnkað tafatíma í umferð verulega. Nauðsynlegt er að setja fram skýr mælanleg markmið og framkvæmdaáætlun í bættri ljósastýringu í borginni. Þessa vinnu þarf nýtt félag Betri samgöngur ohf að leiða.
Miðflokkur
Hér er komin skýrsla um ekki neitt annað en að fjölga opinberum starfsmönnum, skipa upplýsingafulltrúa um umferðarlýsingarmál og sækja peninga í sjóði ESB. Fulltrúar SWECO komu ekki til landsins til að kynna sér málin áður en skýrslan var gerð. Á þeim grunni er ljóst að skýrslan er gagnslaus. Nú hefur komið í ljós að skýrsla með niðurstöðum úttektar SWECO á umferðarljósastýringum á höfuðborgarsvæðinu var skilað 7. júní sl. Það sætir mikilli furðu að kjörnir fulltrúar fái að bera skýrsluna augum fyrst nú því búið er að bíða eftir þessari skýrslu lengi. Ekki nóg með það – heldur er búið að skipa starfshóp sem þegar hefur hafið störf við úrvinnslu skýrslunnar og í honum sitja eingöngu embættismenn. Minnt er á að í samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu voru umferðarljósastýringarmál sett í forgang og gera átti þarfagreiningu á hvernig hægt væri að auka umferðarflæði með réttri ljósastýringu. Þessi skýrsla fjallar ekki um það verkefni. Einn túrinn enn sitja kjörnir fulltrúar minnihlutans uppi með orðinn hlut og hafa ekkert til málanna að leggja.
Flokkur fólksins
Kynntar eru niðurstöður úttektar SWECO á umferðarljósastýringum í Reykjavík. Ef gluggað er í niðurstöður úttektarinnar þá virðist Reykjavík aftarlega á merinni miðað við þær borgir sem fjallað er um í skýrslunni. Hinn 3. júní bókaði Flokkur fólksins við yfirlitskynning á fyrirkomulagi umferðarljósastýringa í Reykjavík eftirfarandi: Á 100 stöðum er enn gömul útfærsla á umferðarljósum en á 113 stöðum nýrri. Þetta er langt því frá að vera viðunandi Eldri útfærslan hlýtur að vera á þeim stöðum þar sem mesta álagið er því slíkar eru umferðartafirnar og umferðarflæðið slakt? Það er vont að enn eigi eftir að nútímavæða ljósabúnað á 100 stöðum. Umferðaröngþveiti er víða í borginni og á hverjum morgni bíða raðir bíla eftir grænu ljósi og leiðin samt löngu orðin greið. Gamaldags umferðar ljósastýringarkerfi er ein stærsta ástæða þess að umferðin er í svo miklum ólestri sem raun ber vitni. Af hverju hefur þetta skref ekki verið tekið til fulls? Leiðrétta þarf einnig gangbrautarljós. Sú staðreynd að rauð ljós loga á gangbraut lengi eftir að viðkomandi hefur þverað gangbrautin er ekki til að bæta útblástursvandann.