Kynntar helstu niðurstöður úttektar umhverfis- og skipulagssviðs á ástandi og aðgengi fyrir alla á strætóstoppistöðvum í Reykjavík.
Gestir
Bjarni Rúnar Ingvarsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
Við þökkum þessa góðu vinnu sem mun nýtast í því að gera strætósamgöngur í Reykjavík aðgengilegar fyrir alla.
Miðflokkur
Þegar keyrt er um Reykjavík má víða sjá mjög dapurt ástand á strætóstoppistöðvum. Víða er að finna eldgömul skýli á meðan á öðrum stöðum er útlitið mjög „fancy“. Á sumum stöðum er bara einungis einn staur sem stendur á malarbing út í móa. Ekki er að finna heildstæða sýn og útlit á strætóstoppistöðvum og skýlum við þær sem er grundvallarforsenda almenningssamgangna. Þetta birtist eins og það séu mörg fyrirtæki sem bjóða upp á almenningssamgöngur í borginni. Nú er það nýjasta að koma strætóstoppistöðvum út á miðjar götur eins og í Geirsgötu og á hringtorgum eins og á Hagatorgi. Afar áríðandi er að koma þessum málum í lag í úthverfum borgarinnar og setja þau í algeran forgang þegar verkefnið fer í framkvæmd.
Flokkur fólksins
Boðað er átak í að bæta aðgengi að strætóstoppistöðvum fyrir fatlað fólk. Betra hefði verið að fá kynninguna fyrir fundinn svo fulltrúar hefðu getað undirbúið sig. Staðan er slæm á meira en 500 stöðum. Eiginlega er, samkvæmt kynningunni, aðgengi hvergi gott. Þessi mál hafa verið í miklum ólestri svo lengi sem er munað, aðgengi er slæmt á flestum strætóstoppistöðvum í Reykjavík. Loksins á að fara í úrbætur og ber því að fagna vissulega. Þarfir fatlaðs fólks í umferðinni hefur ekki verið forgangsmál árum saman. Í raun má segja að strætó hafi ekki verið ætlað fötluðu fólki. Strætó sem almenningssamgöngur hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna eru almenningssamgöngur lítið notaðar af hreyfihömluðu fólki og sjónskertu og blindu fólki. Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma til að gera ástandið viðunandi hvað þá fullnægjandi. Engar hugmyndir eru um hversu langan tíma þetta á eftir að taka.