Aðgerðaáætlun um úrbætur á strætóstoppistöðvum, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 88
11. nóvember, 2020
Annað
Fyrirspurn
Lagt fram bréf skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 9. nóvember 2020, þar sem fram kemur tillaga samgöngustjóra um að unnin verði aðgerðaáætlun um úrbætur á strætóstoppistöðvum á grundvelli úttektar á ástandi þeirra og aðgengi fyrir alla. 
Svar

Tillagan er svohljóðandi:

Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Góð greiningarvinna sem unnin var í samráði við ÖBÍ að frumkvæði fulltrúa meirihlutans liggur fyrir og sýnir að víða þarf að stórbæta aðgengi að strætóstoppistöðvum. Nú leggjum við til að verkefnunum verði forgangsraðað til að hægt sé að ráðast sem fyrst í þær úrbætur sem brýnast eru. Strætó á að vera aðgengilegur öllum.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Mikilvægt er að gera úrbætur í aðgengismálum strætóstoppistöðva í borginni, enda eru þau víða óviðunandi. Rétt er að vinna endanlega tímasetta úrbótaáætlun í nánu samráði við Strætó, ekki síst vegna boðaðra breytinga á leiðakerfinu á næstu misserum. Þá ítreka fulltrúar Sjálfstæðisflokks tillögu sína um upphitaða stíga, en heitir snjóbræðslustígar myndu stórbæta aðgengi að gangstígum í hálku og vetrarverði, og þar með stórbæta aðgengi að strætóstoppistöðvum borgarinnar. Er þess óskað að tillagan verði skoðuð við úrbótavinnu í aðgengismálum. Einnig skal hafa í huga að koma fyrir hjólabogum þar sem hægt er.
  • Flokkur fólksins
    Boðað er átak í að bæta aðgengi að strætóstoppistöðvum fyrir fatlað fólk. Betra hefði verið að fá kynninguna fyrir fundinn svo fulltrúar hefðu getað undirbúið sig. Staðan er slæm á meira en 500 stöðum. Eiginlega er, samkvæmt kynningunni, aðgengi hvergi gott. Þessi mál hafa verið í miklum ólestri svo lengi sem er munað, aðgengi er slæmt á flestum strætóstoppistöðvum í Reykjavík Loksins á að fara í úrbætur og ber því að fagna vissulega. Þarfir fatlaðs fólks í umferðinni hefur ekki verið forgangsmál árum saman. Í raun má segja að strætó hafi ekki verið ætlað fötluðu fólki. Strætó sem almenningssamgöngur hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna eru almenningssamgöngur lítið notaðar af hreyfihömluðu fólki og sjónskertu og blindu fólki. Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma til að gera ástandið viðunandi hvað þá fullnægjandi. Engar hugmyndir eru um hversu langan tíma þetta á eftir að taka.