Lögð fram greinargerð umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða, dags. 21. september 2020, um stöðu svæðisbundinnar náttúruverndar í Reykjavík ásamt tillögum um möguleg skref.
Gestir
Snorri Sigurðsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
Sjálfstæðisflokkur
Fjölmargar náttúruperlur eru innan Reykjavíkur. Mikilvægt er að auka vernd grænna svæða með heildstæðum hætti.
Miðflokkur
Náttúruvernd í Reykjavík er lítils virði ef græna höndin veit ekki hvað sú rauða er að gera. Það er tómt mál að tala um náttúruvernd þegar ruðst er inn á græn svæði og náttúruminjasvæði með landfyllingum, stórkostlegri íbúðabyggð, Bio Dome og ómarkvissri útplöntun laufskóga. Hér er einungis minnst á fá svæði Skerjafjörður, Elliðarárdalur, Esjan, Úlfarársdalur, Álfsnes, nýir malbikaðir stígar í Öskuhlíð, allar náttúrlegar fjörur sem eru að verða uppurnar í Reykjavík vegna landfyllinga, Árbæjarlón sem nú er búið að tæma. Listinn er ótæmandi. Þessa þróun verður að snúa við.
Flokkur fólksins
Þessi kynning gefur góða mynd af því sem er að gerast á sviði umhverfismála með tilliti til skipulags. Galli er þó að lítill munur er gerður á ,,manngerði náttúru” og þeirri sem hefur að mestu þróast á sínum hraða án mikilla afskipta mannsins. Alveg ósnortin náttúra er varla til í borginni eða í umhverfi hennar. Elliðaárdalurinn telst varla náttúrulegt svæði, heldur er hann frekar garður þar sem framandi og stórvöxnum trjám hefur verið plantað. Tala ætti frekar um hann sem mikið raskað svæði frekar en náttúrulegt svæði. Gildi hans er þó vissulega mikið engu að síður. Náttúruleg þróun hans mun taka mið af þeim gróðri sem þar hefur verið plantað. Það sama gildir að verulegu leyti um önnur svokölluð náttúruleg svæði í borginni. Meira að segja hefur flestum fjörum verið spillt. Áberandi dæmi er Geirsnef. Þar hefði verið hægt að halda í lítt snortna náttúru. En það voru líf-fæðu-auðugar leirur eyðilagðar með landfyllingu. Fuglar sem þar höfðust við eru horfnir. Við framtíðarskipulag ætti því áfram að hugsa um svæðin í borginni sem ,,borgargarða” sem þarf að sinna og þá fer best á því að miða við þarfir borgarbúa. Hætta ætti að tala um ósnortna náttúru og líffræðilega fjölbreytni. Það á ekki við.