Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. 4. júlí 2021.
Bókanir og gagnbókanir
Flokkur fólksins
Spurt er um hagkvæmt húsnæði og fleira því tengt. Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um þann alvarlega skort sem er á hagkvæmu húsnæði í borginni þrátt fyrir loforð um annað. Í sölu eru nú um 200 íbúðir en þyrftu að vera 900 til að tryggja eðlilegt flæði. Þetta stendur til bóta en ekki strax. Það sem gerist í framtíðinni er ekki að hjálpa þeim sem vantar hagkvæmt húsnæði í dag. Einnig er skortur á stærra húsnæði fyrir þá sem þess óska. Sagt er að húsnæðisstefna snúist um að tryggja öllum húsnæði en það er bara ekki raunin, allavega ekki í dag.
Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að borgin eigi að þróast þannig að hún geti mætt þörfum og væntingum allra þótt það þýðir meiri dreifingu hennar en þéttingarstefna meirihlutans segir til um. Minnstu íbúðirnar sem sumir héldu að myndu verða hagkvæmari fyrir vikið eru hins vegar hlutfallslega dýrari en þær stærri, sérstaklega á ákveðnum svæðum. Minna húsnæði ætti að vera ódýrara en stærra húsnæði öllu jafna. Fjölskyldur eru misstórar og sumir vilja nýta rými utan húss til ýmissa hluta, ræktunar eða vinnutengdra verkefna.