Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum hjólastólar og göngugrindur
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 92
13. janúar, 2021
Annað
Fyrirspurn
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum í Reykjavík af hálfu umhverfis- og skipulagssviðs hvað varðar hjólastólaaðgengi og göngugrindur. Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja það að allir hafi jafnt aðgengi að verslunum og þjónustu í landinu. Þetta er kveðið á um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Lög um mannvirki leggja þá skyldu á sveitarfélög að hafa eftirlit með aðgengismálum. Ítrekað hefur verið bent á það að reglur um aðgengi séu ekki virtar. Fólk er orðið langþreytt á því að þurfa í sífellu að vekja athygli á því hve langt er í land í þessum málum þrátt fyrir það að lög og reglugerðir séu til staðar sem kveði á um aðgengiskröfur. Þörf er á því að greina betur vandann og efla eftirlit og ráðgjöf til verslana og þjónustuveitenda til að tryggja það að allir komist greitt sinna leiða. Því er lagt til að umhverfis- og skipulagssvið framkvæmi úttekt á málaflokknum og greini hvaða leiðir séu færar til úrbóta til að tryggja það að verslanir og þjónustuveitendur geti haft aðgengiskröfur í samræmi við lög, reglugerðir og alþjóðasamninga.
Svar

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata.Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Tillagan er ekki vel afmörkuð og þótt hugmyndin sé fín er erfitt er að ráðast í verkefni á borð við þetta án þess að gera sér grein fyrir umfangi þess.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Víða þarf að bæta aðgengismál í borginni og er mikilvægt að hafa greinargóða sýn á stöðu mála. Fyrsta skref væri fyrir skipulags- og samgönguráð að fá yfirlit yfir þær úttektir sem gerðar hafa nú þegar um málið. Hjá borginni er starfandi aðgengis- og samráðsnefnd varðandi þessi mál. Skipulags- og samgönguráð ætti að fara markvisst í að vinna úr þeim aðgengishömlum sem enn eru í borgarlandinu sem og í aðgengi hjá stofnunum og fyrirtækjum. 
  • Flokkur fólksins
    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum hjólastóla og göngugrinda. Tillagan hefur verið felld. Segir í bókun að hún sé ekki vel afmörkuð og þótt hugmyndin sé fín er erfitt er að ráðast í verkefni á borð við þetta án þess að gera sér grein fyrir umfangi þess. Þetta þykir fulltrúi Flokks fólksins vera fyrirsláttur. Úttekt af þessu tagi er nauðsynleg og myndi nýtast öllum. Víða er pottur brotinn í þessum efnum. Þeir sem þurfa að styðjast við hjálpartæki eins og hjólastóla og göngugrindur komast sums staðar ekki leiðar sinnar. Betrumbætur ganga of hægt. Segja má sem dæmi að almenningssamgöngur hafa ekki staðið þeim til boða sem notast við hjólastóla. Á biðstöðvum strætó er staðan slæm á meira en 500 stöðum, bæði aðgengi og yfirborð. Strætó, sem almenningssamgöngur, hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna lítið notaðar af hreyfihömluðu, sjónskertu og blindu fólki. Nýjasta hindrunin er að rafskutlur liggja stundum á miðri gangstétt og er útilokað fyrir fólk með göngugrind eða í hjólastól að komast fram hjá. Það hefði gagnast öllum ef gerð hefði verið úttekt á þessum málum svo hægt væri að sjá hver heildarstaðan er.