Gjaldskyldu á almennum bílastæðum,á lóð Landspítalans við Eiríksgötu 5, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 91
16. desember, 2020
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram svohljóðandi tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu sviðsstjóra, dags. 11. desember 2020, ásamt fylgigögnum
Svar

Lagt er til að skipulags- og samgönguráð samþykki með tilvísun í 2. mgr. 86. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 eftirfarandi:Að almenn bílastæði á lóð við Eiríksgötu 5, sem sýnd eru á meðfylgjandi korti, verði gerð gjaldskyld og að svæðið verði skilgreint sem gjaldsvæði 4 með gjaldskyldutíma virka daga frá kl. 8-16.

Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Samþykkt er að heimila gjaldtöku á bílastæðum í námunda við göngudeildarþjónustu að beiðni Landspítalans. Markmið þeirrar breytingar er að koma í veg fyrir að stæðin teppist að óþörfu. Bílastæðin þurfa að vera laus fyrir þau sem erindi eiga á Landsspítalann. Mun gjaldtakan renna til Landspítalans eins og önnur gjaldtaka fyrir bílastæði á lóðum hans.
  • Miðflokkur
    Landsspítalinn hefur fundið upp nýja tekjuleið með því að fara fram á það við Reykjavíkurborg að yfirtaka bílastæðin í kringum spítalann og hefja gjaldtöku. Nú hefur komið í ljós að Landsspítalinn fær allar tekjur af bílastæðunum. Er það eðlilegt að bílastæðasjóður/Reykjavíkurborg geti framselt gæði – í þessu tilfelli bílastæði til þriðja aðila? Svarið er einfalt – nei svo sannarlega ekki. Minnt er á að þetta er ekki í fyrsta sinn sem Landsspítalanum eru færð bílastæði borgarinnar til gjaldheimtu á mjög viðkvæmum hópi sem eðli málsins samkvæmt þarf oft á tíðum bráðaþjónustu. Fólk fer ekki á spítala vegna skemmtunar og að greiða í bílastæði er ekki það fyrsta sem fólk hugsar um þegar bráðaástand blasir við. 
  • Flokkur fólksins
    Á fundinum er lögð fram beiðni Landspítala að setja á gjaldskyldu á merkt bílastæði á Eiríksgötu 5 þar sem nýtt göngudeildarhús opnar eftir áramót. Segir í beiðni að tryggja þurfi að sjúklingar og aðstandendur komist sem næst inngangi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessu vegna erfiðleika fólks að glíma við gjaldmæla. Appið EasyPark er þess utan flókið og treysta ekki allir sér til að nota það. Þeir sem aka rafbílum hafa bílstæðaklukku í 90 mín. en eftir það þarf  fara út og setja í mæli eða nota app. Eldra fólk kvartar yfir slæmu aðgengi og treystir æ meira á að finna einhvern til að aka sér á staðinn. Áhersla er lögð á að koma hjólastöndum upp víða sem er vel. Eldri borgarar ferðast minna um á hjólum og gagnast hjólastandar þeim því síður. Allt of oft eru teknar ákvarðanir sem gera ákveðnum hópi í samfélaginu (öryrkjum og eldri borgurum) erfiðara um vik að komast leiðar sinnar í borginni. Til að bæta þetta mætti nota frekar gjaldmæla en bifreiðaklukku en það kerfi er mun einfaldara en stöðumælar eða app, alla vega að mati einhverra. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur leggja til að notaðar verða  bifreiðaklukkur t.d. á merkt stæði á Eiríksgötu 5.