-
Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
Aukning svifryks er mikið áhyggjuefni því svifrykið veldur alvarlegu heilsutjóni. Í skýrslunni kemur fram að nagladekkjanotkun sé langveigamesti þátturinn í myndun svifryks og að hlutur þungaumferðar sé lítill. Nauðsynlegt er grípa til aðgerða til að draga úr notkun nagladekkja. Lagðar eru til ýmsar aðgerðir sem miða að því að minnka bílaumferð og neikvæðar afleiðingar hennar. Við þökkum áhugaverða samantekt og munum áfram beita okkur fyrir aðgerðum sem draga úr bílaumferð og notkun nagladekkja og þar með svifryksmengun. Til þess að lagaheimild fáist fyrir frekari takmörkun á notkun nagladekkja í Reykjavík þarf samstarf ríkis og borgar eins og ítrekað hefur verið bent á.
-
Sjálfstæðisflokkur
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í upphafi kjörtímabils yfirlýsingu um að svifryk færi aldrei yfir heilsuverndarmörk. Í kjölfarið lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram tillögu að aðgerðaráætlun til að bæta loftgæði borgarinnar svo svifryk færi ekki yfir heilsuverndarmörk. Meðal aðgerða sem lagt var til í tillögunni var dregið yrði úr notkun nagladekkja í borgarlandinu, endurskoðun á efnisvali borgarinnar varðandi gæði efna í malbiki, þrif verði aukin á umferðaræðum (sópun, þvottur og rykbinding), að frítt verði í strætó á „gráum dögum“, takmörkun þungaflutninga með efni sem valdið geta svifryksmengun á „gráum dögum“, og að íbúar í fjölbýlishúsum geti hlaðið rafbíla með auðveldum hætti, að nýting affallsvatns verði notuð í auknum mæli til að hita upp göngu- og hjólastíga borgarinnar og að endingu að unnið verði gegn dreifingu byggðar. Frá því þessi tillaga var lögð fram hefur svifryk farið ítrekað yfir heilsuverndarmörk, án þess að brugðist sé við á lausnamiðaðan hátt.
-
Miðflokkur
Hér birtist stórfurðuleg skýrsla sem er ekki neinu samræmi við veruleikann. Í henni kemur fram að næmnigreining benti til að nagladekkjanotkun spili næst stærsta þátt í myndun svifryks frá umferð í borginni en aðrir áhrifaþættir væru tegund vegyfirborðs, umferðarmagn, umferðarhraði og vegþjónustu eins og söltun og skolun. Þessi setning í skýrslunni er samt óborganleg: „Líkanið gefur til kynna að hlutur þungumferðar í svifryksmyndun sé lítil og að götuþvottur sé óskilvirk aðferð. Hins vegar er þessi niðurstaða um þvottinn í ósamræmi við erlenda reynslu og rannsóknir og frekri skoðun nauðsynleg.“ Þessar fullyrðingar eru í hrópandi andstöðu við það sem kallast almenn þekking. Auðvitað þyrla stórir flutningabílar og strætó upp gríðarlegu ryki. Miklir þungaflutningar hafa átt sér stað á Landsspítalalóðinni og nú í uppbyggingu Landsbankahússins. Það er algjörlega litið fram hjá þessum staðreyndum. Óskiljanlegt er að fullyrt er í skýrslunni að götuþvottur skili engu hér á landi en hann virki vel í öðrum löndum. Staðreyndin er sú að götuþvottur er árangursríkasta leiðin til að minnka svifryk. Inni liggur fyrirspurn frá borgarfulltrúa Miðflokksins hvað götur eru þvegnar oft á ári. Svar hefur ekki borist en gagnlegt hefði verið að svarið hafi legið fyrir þessum fundi.
-
Flokkur fólksins
Hér er verið að tala um heilsu fólks. Svifryk er sannarlega vandamál í borginni og vinna þarf markvisst að því minnka það. Bæta má ástandið með ýmsum aðgerðum. Einfalt atriði er að hafa frítt í Strætó á svifryksdögum - gráum dögum- er spáð. Það kostar lítið enda eru vagnar sjaldan fullir og bílaakstur minnkar. Götuþvottur á afmörkuðu svæði hlýtur að vera til bóta svo og þvottur vörubíla sem eru að aka upp úr byggingarstað. Margar aðrar aðferðir eru mun dýrari svo sem að nota harðara steinefni í malbik en nú er gert en einnig þarf að gera það að einhverju marki. Ekki er hægt að líta fram hjá niðurstöðum rannsókna á svifryksmengun af völdum nagladekkja. Veðurfar spilar stórt hlutverk og ferðir út á land þar sem veður eru iðulega válynd um vetrartímann, aðstæður sem krefjast þess nauðsynlegt að búa bíla nagladekkjum enda þótt oft duga góð vetrardekk. Þá er full ástæða til að minnka notkun flugelda en styrkja starfsemi björgunarsveita sem sinna mikilvægu björgunarstarfi án þess að kaupa skotelda. Reykjavíkurborg hefur ekki sýnt ábyrgð þegar kemur að þessum þætti og hvatt sem dæmi borgarana að finna aðrar leiðir til að styrkja björgunarsveitir en að skjóta upp skoteldum.