Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um lækkun hámarkshraða við Korpúlfsstaðaveg, umsögn - USK2021020022
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 100
14. apríl, 2021
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 9. apríl 2021.
Svar

Tillagan er felld. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Komur og brottfarir
  • - Kl. 12:57 víkur Katrín Atladóttir af fundi.
Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til lækkun hámarkshraða við Korpúlfsstaðaveg og að farið verði í að skoða hraðann við stoppistöð milli Brúnastaða og Bakkastaða. Þar er lýsing nánast engin, hraðinn mikill, merkingar nánast engar og um þetta svæði fara börn til skóla. Tillagan hefur verið felld. Í umsögn segir að ekki eigi að lækka ökuhraða að svo stöddu. En er þá ætlunin að gera það seinna? Væri ekki einfalt að gera það strax. Umsögnin er afar óljós og einnig í hrópandi ósamræmi við hámarkshraðaáætlun skipulagsyfirvalda. Gildir annað lögmál við Korpúlfsstaðaveg en aðrar götur í borginni í kringum skóla og í íbúðahverfum? Á þessum stað er stór hópur barna af yngsta stigi að taka skólarútuna á hverjum morgni og koma svo aftur seinni partinn heim. Báðar tímasetningar eru á háannatíma og þegar umferðin er sem mest. Mælingar sem borgin gerði sl haust til þess að skoða eðli umferðarinnar á veginum voru villandi að mati íbúa. Mælingarnar voru gerðar milli Brúnastaða og Garðsstaða þar sem hraðahindranir eru fyrir og merktar gangbrautir. Í umsögn meirihlutans að nýrri hámarkshraðaáætlun er lögð áhersla á hæga umferð og öryggi gangandi á gönguleiðum að grunnskólum sbr. það sem segir í skýrslu um Hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur. Af hverju á það ekki við um Korpúlfsstaðaveg?
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Nú er að samþykkja heildstæðar tillögur um lækkun hámarkshraða í allri borginni. Umrædd hugmynd er ekki hluti af þeim tillögum en þar hámarkshraði á stofngötum á borð við Korpúlfsstaðaveg enn hafður 50 km /klst.
  • Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
    Þarna er svæði sem börn fara um. Vorum við ekki öll sammála um að þar sem væru skólar og börn á ferð ætti að vera 30 km/klst hraði? Af hverju ná  heildstæðar tillögur um lækkun hámarkshraða meirihlutans ekki til þessarar götu þótt stofngata sé? Um er að ræða öryggi barna sem ætti að vera ávallt og alltaf í forgangi