5. Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024,
Síðast Samþykkt á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 98
24. mars, 2021
Samþykkt
Fyrirspurn
Lögð fram Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024, dags. 15. janúar 2021 sem unnin var af VSÓ Ráðgjöf fyrir skrifstofu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og svæðisskipulagsnefnd ásamt minnisblaði SSH, dags. 11. janúar 2021 og bréfi SSH til Reykjavíkurborgar, dags. 22. janúar 2021. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. mars 2021.
Svar

Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Jón Kjartan Ágústsson svæðisskipulagsstjóri og Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Komur og brottfarir
  • - Kl. 10:10 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundi.
  • - Kl. 10:11 tekur Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir sæti á fundinum.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Þróunaráætlunin byggir á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til 2040. Hún felur í sér sameiginlega sýn sveitarfélaganna á byggingaráform næstu fjögurra ára. Reiknað er með að um 66% nýrra íbúða verði á áhrifasvæði Borgarlínu og um 64% nýs atvinnuhúsnæðis. Óvirkjaðar heimildir í deiliskipulagi eru fyrir 8 þúsund íbúðir og um 15 þúsund íbúðir eru í deiliskipulagsferli. Reiknað er með íbúðaþörfin verði 1000-1600 íbúðir á næstu árum en áætlanir sveitarfélaga gera ráð fyrir um 2 þúsund íbúðum á ári. Útlit er því fyrir framboð á húsnæðismarkaði muni ná jafnvægi á næstu árum. Umfram allt þá fögnum við sameiginlegri sýn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem og þeirri áherslu á að einbeita sér að uppbyggingu í tengslum við Borgarlínuna.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Hér er lögð fram þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024 þar sem byggt er á úreltum dagsetningum varðandi samgönguframkvæmdir. Í skjalinu er gert ráð fyrir því að nýjum gatnamótum við Arnarnesveg og Bústaðaveg við Breiðholtsbraut verði lokið á árinu 2021, en ljóst er að svo verður ekki. Að óbreyttu verða gatnamót við Bústaðaveg ekki frágengin fyrr en eftir að skipulagstíma þróunaráætlunarinnar lýkur. Þá er gert ráð fyrir því að borgarlína verði komin í rekstur árið 2023, en samkvæmt framkvæmdaáætlun sem kynnt var af Betri samgöngum ohf. verður hún ekki komin í rekstur á skipulagstímanum. Þá skortir framboð á hagstæðu byggingarlandi í Reykjavík á skipulagstímanum til að mæta eftirspurn.
  • Miðflokkur
    Bent er á að Sveinn Óskar Sigurðsson bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ samþykki ekki fundargerðina á fundinum og lagði fram svohljóðandi bókun: „Á 98 fundi svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins undir 3. dagskrárlið er afgreidd þróunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið án aðkomu fulltrúa Reykjavíkurborgar í nefndinni sbr. fundargerðina sjálfa. Sé vísað í 4. ml., 1. greinar starfsreglna fyrir svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins segir: ,,Varamenn eru ekki tilnefndir, en við samþykkt tillagna og afgreiðslu mála sem koma til umfjöllunar nefndarinnar skal þess gætt að a.m.k. einn fulltrúi hvers sveitarfélags hafi tækifæri til að greiða atkvæði.". Ekki er séð að þessu hafi verið gætt við afgreiðslu við ofangreint mál á síðasta fundi. Þess vegna telur fulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ brýnt að málið sé tekið upp á ný innan nefndarinnar. Að því sögðu getur fulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ ekki samþykkt fundargerðina.“ Því ber að vísa málinu á ný til svæðisskipulagsnefndarinnar til afgreiðslu.
  • Flokkur fólksins
    Þróunaráætlun sýnir að þétta á byggð gríðarlega og er gengið allt of mikið á græn svæði og fjörur. Erfitt er að spá fyrir um mannfjölda svo rennt er blint í sjóinn með margt. Segir í skýrslunni að lögð skuli áhersla á að bæta sameiginlega stafræna umgjörð fyrir húsnæðisuppbyggingu sveitarfélaga. Er það aðalmálið? Nauðsynlegt er að útskýra svona hugtök fyrir útsvarsgreiðendum áður en milljörðum er streymt í alls konar stafræn verkefni. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að borgin eigi að þróast þannig að hún geti mætt þörfum og væntingum allra. Nóg þarf að vera af hagkvæmu húsnæði, bæði litlu og stóru. Minnstu íbúðirnar eru hins vegar hlutfallslega dýrari. Minna húsnæði ætti að vera ódýrara en stærra húsnæði öllu jafna. Skortur er á húsnæði með rými í kring. Fjölskyldur eru misstórar og sumir vilja nýta rými utan húss til ýmissa hluta, ræktunar eða vinnutengt. Ef horft er til gatnamannvirkja þá eru mestu áhyggjurnar af fyrirhuguðum þriðja áfanga Arnarnesvegar. Ákveðið hefur verið að byggja framkvæmdina á 18 ára gömlu umhverfismati þrátt fyrir að forsendur hafa breyst verulega frá því mati, ásamt breytingum á landnotkun á áhrifasvæði, og breytinga á löggjöf um umhverfismál og á alþjóðlegum skuldbindingum.