Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 12. maí 2021.
Bókanir og gagnbókanir
Flokkur fólksins
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvernig Reykjavíkur hyggst fyrirbyggja að börn sem eru að leika sér í fyrirhuguðum Vetrargarði í Efra Breiðholti andi ekki að sér mengandi útblæstri umferðar af hraðbraut Arnarnesvegar sem leggja á þvert yfir Vatnsendahvarf? Segir í umsögn að í „umferðarlögum er jafnframt að finna heimild fyrir sveitarfélög og Vegagerðina til að takmarka umferð vélknúinna ökutækja um stundarsakir vegna mengunar, sem kann að vera beitt ef mengun í lofti fer yfir heilsuverndarmörk.“ Fulltrúi Flokks fólksins telur hér komið tilefni til að fá nýtt umhverfismat. Það er klént að þurfa að loka væntanlegum Vetrargarði í tíma og ótíma vegna útblásturs frá hraðbraut. Stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu mælast iðulega yfir lögbundin heilsuverndarmörk svifryks. Á gráum dögum vilja sérfræðingar í loftmengun að börn haldi sig fjarri stofnbrautum og að allir haldi sig frá líkamlegri áreynslu við stofnbrautir. Reykjavíkurborg er með stórar áætlanir fyrir Vetrargarð fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis, við skíðabrekkuna í Jafnaseli. Varla getur það talist ásættanlegt að leggja allt að 4 akreina stofnbraut, með tvöföldu hringtorgi, alveg upp við leik- og útivistarsvæði barna? Mikil hætta er á því að svifryksmengun fari yfir hættumörk í Vetrargarðinum á gráum dögum, sem myndi breyta Vetrargarðinum í ónothæft hættusvæði og ógn við lýðheilsu barna og fullorðinna.