Lögð fram skýrsla Hafrannsóknarstofnunar um farleiðir laxa og urriða á ósasvæðum Elliðaáa og Leirvogsár árin 2017 og 2018, dags. mars 2021.
Gestir
Hlynur Bárðarson frá Hafrannsóknastofnun, Guðmundur B. Friðriksson, Þórólfur Jónsson og Snorri Sigurðsson frá skrifstofu umhverfisgæða taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
Sósíalistaflokkur
Eftir að hafa skoðað skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um farleiðir laxfiska í ósum Elliðaár og Elliðavogs með tilliti til landfyllinga þá teljum við brýnna að vernda þá stofna sem þarna eru nú þegar en að bæta við auknu landflæmi í andstöðu við náttúru staðarins. Samkvæmt skýrslunni hefur fyrsti hluti landfyllingarinnar óveruleg áhrif en ætla má að næstu skref yrðu íþyngjandi fyrir laxastofnana á þessu svæði. Fulltrúi Sósíalista telur að náttúran skuli í þessu tilliti njóta vafans og fá að vera eins óáreitt og nokkur kostur er, sér í lagi þar sem um einstaka náttúruperlu er að ræða sem er laxgengd í borg. Við teljum að strandlengjuna beri að varðveita og gæta varúðar eins og í öllu sem snýr að náttúru landsins.
Miðflokkur
Frá upphafi 20. aldar hafa miklar landfyllingar verið gerðar við strandlengju Reykjavíkurborgar og í dag eru náttúrulegar og óskertar fjörur lítill hluti strandsvæði borgarinnar. Áætlað er að fara í 13 hektara landfyllingu austan megin á ósasvæði Elliðaáa og reisa þar íbúðabyggð. Er stærðin á landfyllingunni langt yfir þeim mörkum sem krefst umhverfismats. Líst er yfir miklum áhyggjum vegna villtra fiskitegunda í Elliðaám og er ljóst að um mikið og stórtækt inngrip er að ræða í þá einstöku náttúruperlu sem árnar eru inn í miðri höfuðborg landsins. Skipulagsstofnun telur að ekki sé unnt að taka afstöðu til þess hvort ásættanlegt sé að fara í 2. og 3. áfanga landfyllingar. Umhverfissóðarnir sem stjórna Reykjavík eira engu.
Flokkur fólksins
Lögð er fram skýrsla Hafrannsóknarstofnunar um farleiðir laxfiska á ósasvæðum Elliðaáa. Skýrslan er unnin í samstarfi við Reykjavíkurborg en borgin áætlar 13 ha landfyllingu austan megin á ósasvæði Elliðaáa þar sem gert er ráð fyrir að rísi íbúðabyggð. Strandsvæðið sem fer undir landfyllingu er mögulega nýtt af laxaseiðum á göngu sinni úr Elliðaám til sjávar. Samkvæmt skýrslunni er ekki víst að landfyllingar hafi áhrif á göngu þeirra. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessu því landfylling minnkar náttúrulegt lífríki við ströndina. Best væri ef þessir bakkar fengju að vera sem mest í friði og setja þar ekki stór mannvirki. Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin telur að bein áhrif fyrirhugaðrar landfyllingar á laxfiska geti orðið talsverð og jafnvel verulega neikvæð sé horft til mögulegrar skerðingar á fæðumöguleikum og búsvæði. Hver þessi áhrif verða er þó háð óvissu þar sem ekki liggja fyrir nægilega upplýsingar um búsvæði laxfiska við ósanna, um dvalartíma laxfiska og fleira. Stofnunin minnir á meginreglu umhverfisréttar um varúð sem hefur m.a. verið lögfest í náttúruverndarlögum. Heildarvandinn er að verið er að ganga á náttúrulegar fjörur og manngera náttúru til að búa til gerviveröld þar sem náttúrulegu umhverfi með dýralífi, öllum þeim kostum sem því fylgir, er haldið fjarri.