Fyrirspurn
Fulltrúi Flokks fólksins hefur haft samband við Sveitarstjórnarráðuneytið til að kanna hvort bann við bókunum við kærum og framlögðum bréfum borgarstjóra standist sveitarstjórnarlög. Lögfræðingur ráðuneytisins hvatti borgarfulltrúa Flokks fólksins til að óska eftir skýringum frá lögfræðingi skipulags- og samgöngusviðs vegna málsins. Hér með er því óskað skriflegra skýringa á því hvers vegna bókunarréttur er þrengri á fundum skipulags- og samgönguráðs en almennt tíðkast í ráðum jafnvel þótt byggja eigi á sömu lögum og reglugerðum. Gengið hefur verið óeðlilega langt í að meina fulltrúum minnihlutans að leggja fram bókanir m.a. við kærur sem kynntar eru og "bréf borgarstjóra" sem lögð eru fram á fundum. Bókanir eru eina tjáningarformið sem fulltrúar minnihlutans geta beitt til að koma á framfæri skoðunum sínum og álitum á málum þegar fundir eru lokaðir (sbr. 2. mgr. 5. gr. samþykktar skipulags- og samgönguráðs). Ekki er tilgreint að ákveðin mál á dagskrá skuli undanskilin. Vísað er einnig í 2. mgr. 26. gr. sveitarstjórnarlaga að málfrelsi fylgi réttur til að leggja fram bókanir. Eins hefur fulltrúi Flokks fólksins ítrekað óskað eftir að fá fundardagskrá án fylgigagna senda í fundarboði, sbr. verklag sem tíðkast í öðrum ráðum. Það hefur ekki vafist fyrir öðrum ráðum að senda dagskrá samhliða boðun. Öll ráð og svið borgarinnar nýta sömu tæknina og ætti hún því ekki að vera vandamál hér.