Lagt er til að bæta aðgengi fólks að vesturströndinni í Vesturbænum við Ánanaust. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að koma með tillögu að útfærslu fyrir 15. júní næstkomandi. Nú standa yfir endurbætur á sjóvarnargarði við Eiðsgranda og Ánanaust sem verður mun stærri á eftir. Gert er ráð fyrir áningarstað fyrir ofan garðinn við Eiðsgranda en aðgengi að ströndinni verður mjög takmarkað. Á bak við sjóvarnargarðinn leynist nærri kílómetra löng falleg strönd með einstöku útsýni. Mikil gæði felast í því að geta setið við ströndina, enda er mikil upplifun að sjá sólsetrið og horfa á öldurnar við Ánanaust. Það myndi auka gæði þessa fallega útivistarstaðar að gera gott aðgengi fólks að þessum fallega stað þannig að unnt sé að ganga með öruggum hætti yfir garðinn og niður fyrir hann.
Svar
Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa og skrifstofu umhverfisgæða.
Bókanir og gagnbókanir
Sjálfstæðisflokkur
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að vel sé tekið í tillöguna enda um einstakan stað að ræða til að njóta og upplifa sólsetrið. Gott aðgengi að þessum fallega útivistarstað mun auka möguleika borgarbúa til útivistar á svæðinu.
Flokkur fólksins
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar og styður þessa tillögu um að bæta aðgengi fólks að vesturströndinni i Vesturbæ við Ánanaust enda hefur fulltrúi Flokks fólksins marg oft bent á að náttúrulegar fjörur eru gott útivistarsvæði, en því miður er stöðugt gengið á þær. Þar sem möguleiki er á að nýta þær til útivistar á aðgengi að vera gott. Þannig er það í þessu tilfelli. Gert er ráð fyrir áningarstað fyrir ofan garðinn við Eiðsgranda en aðgengi að ströndinni verður mjög takmarkað. Á bak við sjóvarnargarðinn leynist nærri kílómetra löng falleg strönd með einstöku útsýni eins og kemur fram í tillögunni. Bæta þarf aðgengi til að fólk geti notið þessa fallega útivistarstaðar.