Lagt er til að fela skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar að móta tillögu að fyrsta áfanga innleiðingar hámarkshraðaáætlunar sem komi til framkvæmda á árinu. Áhersla verði lögð á götur við leiðir barna til og frá skóla eða frístundum sem og götur þar sem er mikill fjöldi gangandi vegfarenda.
Svar
Samþykkt.
Bókanir og gagnbókanir
Sjálfstæðisflokkur
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja tillöguna í ljósi þess að verið er að leggja áherslu á götur við leiðir barna til og frá skóla eða frístundum.
Flokkur fólksins
Fulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á að hafa 30 km/klst. hámarkshraða á svæðum þar sem börn fara um, s.s. í nágrenni við skóla. Um þetta hefur aldrei verið deilt í borgarstjórn. Víða hefur hraði í íbúðagötum verið lækkaður og er það mjög af hinu góða. Hins vegar er annað í tillögu meirihlutans/skipulagsyfirvald um innleiðingu hámarkshraðaáætlunar og hraðahindrana sem eru verulega umdeilt enda togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma. Annars vegar að því minni hraði því færri óhöpp en hins vegar að því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins og meiri umferðartafir og svifryksmyndun. Umferðartafir og teppur í borginni er víða vandamál sem ekki hefur tekist að leysa þrátt fyrir margar nothæfar tillögur. Þessi mál hafa lengi verið vanrækt. Vaxandi vandi er sem dæmi á Breiðholtsbrautinni á annatímum. Þar hafa nú myndast langar bílaraðir á morgnana og síðdegis. Þar stendur til að lækka hraðan sem er auðvitað algjörlega tilgangslaust á braut þar sem umferð er orðin svo þung að útilokað er að aka þar ,,hratt”.
Sósíalistaflokkur
Áheyrnarfulltrúi sósíalista fagnar tillögu um hámarkshraðaáætlun og er spenntur að sjá niðurstöður sem fyrst.