Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 20. ágúst 2021.
Bókanir og gagnbókanir
Flokkur fólksins
Svar/umsögn hefur borist við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Breiðholtsbraut en spurt var hvað skipulagsyfirvöld hyggjast gera vegna þróunar umferðarmála á Breiðholtsbraut. Þar er umferð mikil á annatímum og er orðið afar brýnt að tvöfalda legginn frá Jafnaseli að Rauðavatni. Fram kemur í svari ,,að samkvæmt núgildandi fjögurra ára samgönguáætlun 2020 – 2024, eru fyrirhuguð ný vegamót á Breiðholtsbraut vegna tengingar við Arnarnesveg en framkvæmdin er hluti af samgöngusáttmálanum. Aðrar framkvæmdir á Breiðholtsbraut eru ekki fyrirhugaðar á gildistíma áætlunarinnar.” Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að þetta er einfaldlega vondur hluti af sáttmálanum. Vandinn sem spurt var um, er að leggurinn frá Jafnaseli að Rauðavatni ber ekki nægilega vel þá umferð sem þegar fer þar um. Ný vegamót á Breiðholtsbraut vegna tengingar við Arnarnesveg bæta ekki úr vandanum. Þau auka hann. Hvað ætla skipulagsyfirvöld að gera í þessu? Nú þegar eru þrengsli og tafir þarna með öllu óþolandi fyrir fólk sem fer þarna um ekki síst í aðdraganda helgar þegar borgarbúar fara úr borginni. Þá er umferðin stappfull lengst niður eftir Breiðholtsbrautinni.