Lögð fram umsagnarbeiðni borgarráðs dags. 27. maí 2021 ásamt bréfi borgarstjóra, dags. 17. maí 2021, þar sem óskað er umsagnar skipulags- og samgönguráðs um drög að lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030.
Bókanir og gagnbókanir
Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
Meirihluti skipulags- og samgönguráðs gerir ekki athugasemdir við lýðheilsustefnu borgarinnar til 2030 en áréttar ráðið að borgarskipulag er nátengt lýðheilsu.
Flokkur fólksins, Flokkur fólksins
Þau drög sem hér eru lögð fram, Heilsuborgin, Lýðheilsustefna er oflof. Betra er að vera nær jörðinni og vera raunsær. Vissulega er margt gott almennt séð á Íslandi og í sveitarfélögum þ.m.t. því stærsta. En því miður er ansi mikið sem þarf að laga og sem hefði átt að vera löngu búið að taka á. Heilsa og hamingja byggir á svo mörgu t.d. að eiga fæði, klæði og húsnæði og þurfa ekki að hafa áhyggjur af börnum sínum. Nú er vaxandi fátækt, biðlistar barna eftir nauðsynlegri aðstoð í sögulegu hámarki og hefur samkvæmt nýjum könnunum andleg heilsa barna versnað. Viðvörunarljós loga á rauðu en engin viðbrögð eru af hálfu borgarmeirihlutans. Umferðartafir valda mengun þar sem ljósastýringar eru í ólestri. Ekkert af þessu tengist góðri heilsu og hamingju. Þetta hefði fulltrúi Flokks fólksins vilja sjá ávarpað í stefnunni og hvenær ætti að bæta þessa hluti. Hver er tímalínan og hvaðan kemur fjármagnið? Víða þarf að taka þarf til hendinni og er það alfarið á valdi meirihlutans í borgarstjórn. Góð stefna er fín byrjun en það gengur ekki að láta síðan þar við sitja.