Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,um breikkun Breiðholtsbrautar
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 109
30. júní, 2021
Annað
Fyrirspurn
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar þrýsti á Vegagerðina og óski eftir viðræðum hið fyrsta um að breikka Breiðholtsbraut frá Jafnaseli að Rauðavatni. Þessi bútur brautarinnar er á  annatímum  löngu sprunginn, ekki síst síðla fimmtudags og föstudags þegar fólk streymir út úr bænum. Umferðarteppur eru af þeirri stærðargráðu að umferðarteppan nær niður alla Breiðholtsbrautina og situr fólk fast á brautinni í óratíma. Ástandið mun ekki batna þegar að Arnarnesvegurinn mun tengjast Breiðholtsbrautinni. Eðlilegt hefði verið að tvöföldun Breiðholtsbrautar væri gerð á undan tengingu við Arnarnesveg. Þetta ætti að vera algert forgangsmál. 
Svar

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með tillögunni.

Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Tillögu Flokks fólksins um  að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar þrýsti á Vegagerðina með að fá viðræður um breikkun Breiðholtsbrautar frá Jafnaseli að Rauðavatni hefur verið felld með þeim rökum „að breytingar séu fyrirhugaðar á þessu svæði í tengslum við fyrirhugaða tengingu Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar og ætti því ekki að taka tvöföldun Breiðholtsbrautar út fyrir þá framkvæmd og ráðast í hana óháð öðru“.  Þetta eru rök sem halda engu vatni að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þessi tillaga ætti að fá forgang yfir 3. kafla Arnarnesvegar því sú tenging mun einungis gera ástandið verra með nýjum ljósastýrðum gatnamótum á Breiðholtsbraut. Aðrir kostir hafa ekki verið skoðaðir s.s. hvort hringtorg sé betri kostur heldur en ljósastýrð gatnamót á nokkrum stöðum á Breiðholtsbraut. Það ástand sem nú ríkir á þessum kafla er skelfilegt. Það er eiginlega með ólíkindum að þessi hluti brautarinnar hafi ekki strax verið gerður tvíbreiður. Þetta er úrelt gatnakerfi. Ákall borgarbúa um breikkun er hunsað. Þetta bitnar á öllum þeim sem aka þessa leið, margir á leið út úr bænum. Skipulagsyfirvöld hafa á engum tímapunkti átt umræðu um málið við Vegagerðina svo vitað sé, til að fá þennan hluta brautarinnar breikkaðan en hlýða hins vegar Kópavogsbúum eins og sjá má í máli Arnarnesvegar, 3ja áfanga.  
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Breytingar eru fyrirhugaðar á þessu svæði í tengslum við fyrirhugaða tengingu Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar. Óskynsamlegt er að taka   tvöföldun Breiðholtsbrautar út fyrir þá framkvæmd og ráðast í hana óháð öðru, eins og tillagan leggur til. Því er réttast að fella tillöguna.