Niðurstöður könnunar um ferðavenjur, kynning
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 112
1. september, 2021
Annað
Fyrirspurn
Kynning á niðurstöðum könnunar um ferðavenjur íbúa á höfuðborgarsvæðinu.
Svar

(A)    Skipulagsmál

Gestir
Birgir Rafn Baldursson frá Maskínu tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Líkt og undanfarin ár kemur í ljóst að það eru miklu fleiri sem ferðast með bíl heldur en þau sem vilja helst ferðast með bíl. Þó flest ferðast til og frá vinnu á einkabíl eru mörg innan allra hverfa sem myndu gjarnan vilja nýta annan kost en einkabílinn. Flest vilja helst nota aðra fararmáta en einkabílinn til að ferðast til og frá vinnu og myndu velja það sem sinn fyrsta kost eða ríflega helmingur í heildina. Heil 40% þeirra sem fara oftast til vinnu með bíl myndu helst vilja nýta annan fararmáta. Það eru mikilvæg skilaboð sem borgin þarf að hlusta á. Forvitnilegt er að sjá að yfir 8 prósent segjast oftast ferðast á rafmagnshlaupahjólum en þetta er í skipti sem það er mælt sérstaklega.
  • Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
    Hvaða útúrsnúningar og vitleysisgangur eru hér á ferðinni í bókun meirihlutans. Tæp 80% Reykvíkinga nota fjölskyldubílinn til að komast til og frá vinnu. Að pína fólk í könnun til að svara því í öðru og þriðja lagi hvernig það vilji ferðast ef fjölskyldubíllinn væri ekki til staðar skekkja staðreyndir í kollum meirihlutans og nota þau þær afleiddu upplýsingar til að draga úr vægi fjölskyldubílsins. En það er þeim líkt. Séu upplýsingar þeim í óhag þá afvegaleiða þau umræðuna.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Athygli vekur að hlutdeild einkabílsins eykst milli ára. Rafmagnshlaupahjól koma sterk inn með um 4% ferða til vinnu, auk þess sem margir vilja nota þennan ferðamáta til að komast til vinnu. Hlutfall hjólreiða er hátt, en hlutfall ferða í Strætó hefur ekki verið lægra í fjögur ár! Þá er hlutfall gangandi einnig lægra en það hefur verið í fjögur ár. Ætla má að innkoma rafhjóla hafi áhrif á aðra ferðamáta, enda eru þau mjög vinsæl. Bættir samgönguinnviðir auka frelsi fólks til að velja sér fararmáta og er mikilvægt að farið verði í víðtækar úrbætur í samgöngum fyrir alla í Reykjavík.
  • Miðflokkur
    Það er ánægjulegt að sjá þessa ferðakönnun sem staðfestir að Reykvíkingar eru ekki að yfirgefa fjölskyldubílinn og 78,7% ferðast til og frá vinnu á bíl. Athygli vekur að einungis 4% ferðast með strætó sem er ekki í samræmi við uppbólgnar farþegatölur sem berast frá Strætó bs. Það er sama hvað meirihlutinn hamast á móti fjölskyldubílnum og leggi í mikinn kostnað við að útrýma bílastæðum í miðborginni þá tekur fólk ekki við þeim kúgunartilburðum sem betur fer. Reykjavíkurborg liggur á stóru landsvæði og fólk einfaldlega verður að sinna daglegu lífi á bílum. Það er mál að linni hjá meirihlutanum og viðurkenni að stefna þeirra í umferðarmálum hefur magalent út í skurði. Þau geta ekki þröngvað sínum lífsstíl og hugarórum upp á Reykvíkinga í átt að þröngsýni, einsleitni, rörsýn.
  • Flokkur fólksins
    Eins og þessi könnun og margar aðrar sýna þá ferðast meira en 80% Íslendinga á bíl í vinnu. Þetta hefur ekki breyst þótt skipulagsyfirvöld hafa lagt mikið á sig til að koma hlutdeild einkabílsins niður undir 50%. Hjól sem samgöngutæki eru greinilega ekki eins vinsæl og halda mætti en rafmagnshjólin kunna að vera að koma sterkt inn. Ekki er að sjá að ferðabreytingar séu í aðsigi enda þótt fólk vilji sjá  fleiri möguleika. Helstu mistök þessa meirihluta er að hafa nánast stillt þessum tveimur valkostum, bíll og hjól sem andstæðum. Huga þarf að þörfum allra og hafa það að markmiði að draga úr töfum hvernig svo sem fólk kýs að koma sér milli staða. Enn er langt í borgarlínu, a.m.k. 2-3 ár í 1. áfanga. Vandinn er að það eru engar öflugar almenningssamgöngur sem val fyrir þá sem aka bíl. Notendum strætó hefur fækkað, margir farnir að nota rafhjól frekar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt forræðishyggju skipulagsyfirvalda, og hvernig reynt hefur verið að þrýsta fólki til að leggja bíl sínum, fólk sem geta e.t.v. ekki annað en verið á bíl vegna aðstæðna sinna. Þrýstiaðgerðir meirihlutans eru í formi þess að gera tilveru bílnotenda erfiða s.s. með því að leysa ekki umferðarteppur og laga ljósastýringar.