-
Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
Könnunin sýnir að 69% Reykvíkinga eru jákvæðir í garð göngugatna og 16% neikvæðir. Þá eru alltaf fleiri að sem telja að göngusvæðið sé of lítið. Jákvæðir eru fleiri en neikvæðir í öllum hverfum, öllum aldurshópum og á öllum tekjubilum. Niðurstaða könnunarinnar er skýr: Borgarbúar eru hrifnir af göngugötum.
-
Miðflokkur
Svona er farið með útsvarsgreiðslur Reykvíkinga. Keyrð er könnun eftir könnun um sama efni um gæluverkefni meirihlutans og allt af sama fyrirtækinu, Maskínu. Það er orðið rannsóknarefni hvað það fyrirtæki er samantvinnað í útgjaldahlið Reykjavíkur. Það samstarf hófst þegar Viðreisn kom inn í viðreistan meirihluta. Það eitt og sér er rannsóknarefni. Svo virðist að ákveðin fyrirtæki séu á spena hjá borginni.
-
Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Sama fyrirtæki hefur mælt afstöðu til göngugatna síðan 2017. Innkaup á ráðgjafarþjónustu er á ábyrgð sviðsins og í fullu samræmi við innkaupareglur. Dylgjum fulltrúa Miðflokksins er hafnað.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Staðreyndir eru ekki dylgjur og það eru dylgjur að dylgja um það.
-
Flokkur fólksins
Meirihlutinn leggur fram niðurstöður árlegrar skoðunarkönnunar um viðhorf til göngugatna, gerð af Maskínu. Þótt almennur stuðningur sé við göngugötur kemur fram að andstaðan er mest í úthverfum. Gera má því skóna að það tengist m.a. slökum almenningssamgöngum, að ekki sé auðvelt að komast á þessar göngugötur nema á bíl og erfitt sé að finna honum stæði. Meirihluti telur að áhrif á verslun séu neikvæð, en jákvæð á veitingarekstur. Er það ásættanlegt? Margar kannanir hafa verið gerðar í þessu máli og er ákveðinn rauður þráður í þeim að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þeir sem búa á miðbæjarsvæðinu eru ánægðir, vilja ekki sjá bílana. Þeir sem stunda skemmtanalífið og ferðamenn eru líka ánægðir. Aðrir eru neikvæðir og leita eftir þjónustu annars staðar en í miðborginni. Þeir sem eru neikvæðir kvarta yfir því augsýnilega, aðgengi er slæmt að svæðinu, þeir sem eru hreyfiskertir geta ekki gengið langt. Sumir nefna veður; göngugötur fyrir fáa sólardaga; að sjarmi miðbæjarins sé horfinn; að þetta hefði alls ekki átt að vera forgangsmál o.s.frv. Meirihlutinn leggur á sama tíma fram tillögu að bjóða þeim sem glíma við hreyfiskerðingu að leiga af borginni rafskutlur og telja að með því sé verið að koma á móts við þá sem finnst aðgengi slæmt og eiga erfitt um gang.